Pólverjar ánægðir að hafa pólskan starfsmann

Starfið er mjög gott hérna og ég er sjálf mjög hissa á því hve mikið starf er unnið hjá Eflingu. Ég hef unnið í margvíslegum störfum þar sem ég aðstoða fólk en starfið hérna er með öðrum hætti. Samfara aðstoðinni þurfum við að gæta þess vel að úrlausnarefnin hér eru öll meira eða minna tengd lögum, reglum og kjarasamningum. Þetta gerir það að verkum að við verðum að búa yfir mikilli þekkingu og kunnáttu. Ég er auðvitað að læra þetta allt saman.  En reynslan er samt dýrmætasta vegarnestið, segir Vera Wieslawa Lupinska sem hefur starfað sem túlkur og þjónustufulltrúi hjá Eflingu í nokkra mánuði en hefur lengi aðstoðað starfsmenn Eflingar við túlkanir og þýðingar á og af pólsku.

Ég taldi mig vita töluvert um Eflingu og starfið hér. Ég hef um margra ára skeið aðstoðað Pólverja hér á Íslandi. Þegar þeir koma frá heimalandinu eiga þeir oft erfitt þar sem þeir tala oft litla sem enga íslensku. Menningarheimur þeirra fylgir þeim líka oft til Íslands. Þeir fylgjast oft mikið með fréttum frá heimalandinu eins og eðlilegt er en tungumálið er þröskuldurinn sem erfitt er að komast yfir. Þess vegna er það mjög gefandi að fá að vera í starfi þar sem hlutverkið er að hjálpa og aðstoða og fólk er oft mjög þakklátt fyrir vinnuna okkar hér.

En þetta er í reynd mikill lærdómstími fyrir mig. Við erum hér með marga kjarasamninga og lög um vinnumarkaðinn og síðan túlkanir á þeim og margt af þessu er alveg nýtt fyrir mig.

Jú, það gengur vel að læra þetta því hér er samhentur hópur sem vinnur vel saman. Það er líka almennt góður andi hér á skrifstofunni. En ég aðstoða við túlkanir og þýðingar á öllum sviðum ekki bara í kjaramálum, heldur líka í sjúkrasjóðum, starfsendurhæfingunni, fræðslumálum og orlofsmálum enda kemur það í ljós að pólskir félagsmenn eru mjög ánægðir að hafa hér pólskan starfsmann sem skilur vel það umhverfi sem þeir koma úr og getur talað við þá á þeirra eigin tungumáli.

Það hefur komið mér á óvart hvað það er gríðarlega mikið að gera hér hjá Eflingu. Það má segja að verkefnin geti náð vel út fyrir vinnudaginn og fólk kemur hingað úr alls konar fyrirtækjum með mismunandi kjarasamninga en síðan leitar fólk sér alls konar upplýsinga fyrir utan kjarasamningana. Við reynum auðvitað að leysa úr þeim málum sem við getum. Á þessum vinnustað er reynslan dýrmætust en ekki síður að kunna kjarasamninga og lögin sem gilda um vinnumarkaðinn.

Ef við ættum að bæta eitthvað hér á Eflingu, þá tel ég að við ættum að reyna að auka allt efni sem við framleiðum á pólsku. Það eru margir Pólverjar hérna sem tala litla eða enga íslensku og þess vegna er nauðsynlegt að hafa sem mest af þessu efni til á pólsku og geta rétt þeim efnið í bæklingum eða með öðrum hætti. Það skiptir mjög miklu máli, segir Vera.

Mér líkar mjög vel á þessum vinnustað. Ég hef  oftast unnið sem túlkur á nokkrum vinnustöðum en þetta starf hér á Eflingu er mjög ólíkt því sem ég hef unnið hjá áður. Það er sérstaklega fjölbreytni mála og spurninga sem koma upp. En hér hjálpast fólkið að enda væri engin leið að læra þetta allt nema vegna þess að hér eru margir reynsluboltar sem alltaf eru reiðubúnir að aðstoða. Já, ég get ekki sagt annað en ég er ánægð hér og það eru forréttindi að fá að vera í mínu hlutverki að aðstoða landa mína eins og ég get, segir Vera að lokum.