Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar-stéttarfélags, fundar í dag með Pétri Magnússyni, formanni Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Ástæða fundarins eru þær miklu tafir sem orðið hafa á því að starfsmenn hjá stofnunum innan SFV fái greidda afturvirka launaþróunartryggingu sem Efling telur að samkomulag ríki um. Efling hefur áður sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins.
Formaður Eflingar hefur sent bréf til þeirra trúnaðarmanna félagsins sem starfa hjá umræddum stofnunum og greint þeim frá því að málið er tekið mjög alvarlega. Á fundi stjórnar Eflingar sem haldinn var í gær, þann 18. maí var auk þess fjallað um málið.
Félagsmenn sem rétt eiga á umræddum greiðslum hafa verið duglegir við að hafa samband við skrifstofu Eflingar. Er þeim þakkað fyrir að halda vöku sinni í málinu og geta þeir treyst því að forysta félagsins mun fylgja málinu eftir til enda.