Fékk úrlausn sinna mála eftir að hafa leitað til Eflingar – vinnustaðaeftirlit og lögfræðiaðstoð skipti sköpum

13. 07, 2018

Efling – stéttarfélag fagnar umfjöllun Stundarinnar í dag, föstudag 13. júlí, um sögu Kristýnu Králová, félagsmanns í Eflingu. Kristýna starfaði hjá Hótel Adam við óboðlegar aðstæður og mátti þola gróf brot á kjarasamningsbundnum réttindum sínum af hálfu atvinnurekanda. Afskipti Eflingar af Hótel Adam í gegnum vinnustaðaeftirlit með Matvís síðla árs 2016 voru fréttaefni á sínum tíma, og síðar tók Efling við launakröfum Kristýnu og fylgdi þeim eftir alla leið fyrir dómi. Héraðsdómur dæmdi að endingu atvinnurekanda Kristýnu til að greiða henni vangoldin laun að fjárhæð 2.323.553 kr. auk málskostnaðar og dráttarvaxta.

Í frétt Stundarinnar 13. júlí kemur fram hvernig Efling studdi félagsmann alla leið við að vinna launakröfu fyrir dómi.

Líkist mansali

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði mál Kristýnu sýna rækilega fram á mikilvægi verkalýðsfélaga við að halda uppi vörnum fyrir berskjaldaða einstaklinga í íslensku samfélagi. „Hér er kona af erlendum uppruna blekkt með loforðum um vinnu á Íslandi en lendir svo í misnotkun, svikum og ofbeldi sem ganga út yfir öll mörk. Aðstæðurnar sem Kristýna var látin búa við eiga meira skylt við mansal en atvinnustarfsemi,“ segir Sólveig, en Kristýna fékk ekki kennitölu, var ekki greidd laun og var haldið fanginni innan dyra með hótunum auk þess sem hún var neydd til að deila rúmi með atvinnurekanda sínum.

Lögmenn og kjarafulltrúar stóðu vaktina

Sólveig Anna sagði einnig: „Þrautreyndur kjaramálafulltrúi okkar fór á staðinn í vinnustaðaeftirlit sem skipti miklu við að svipta hulunni af þessu ógeðslega máli. Kjaramálafulltrúi gerði svo launakröfu fyrir hönd starfsmannsins um leið og hún leitaði til okkar. Svo fóru lögmenn okkar með málið fyrir dóm og unnu. Ég er ótrúlega stolt af starfsfólkinu hér hjá Eflingu sem notaði reynslu sína og þekkingu til verja rétt þessa félagsmanns alla leið. Ég hvet allt verkafólk á Íslandi sem lendir í misnotkun af þessu tagi til að leita aðstoðar hjá sínu verkalýðsfélagi. Það skilar árangri.“Anna Lilja Sigurðardóttir hdl. sem starfar fyrir Eflingu og flutti málið fyrir dómi segir miklu hafa skipt við meðferð málsins hve vel Kristýna hélt utan um skráningu á vinnutímum. Þessi gögn hafi gegnt mikilvægu hlutverki við að færa sönnur á vangreiðslur launa, en atvinnurekandi hélt því fram að vinnutími Kristýnu hefði verið annar en byggt var á í kröfu hennar og að uppgjör launa hefði farið fram á grundvelli þeirra tíma. Anna Lilja segir að einnig hafi vinnustaðaeftirlit skipt máli til að sýna fram á viðveru starfsmanns á starfsstöð þar sem atvinnurekandi hélt því fram að Kristýna hefði ekki verið starfsmaður þess félags sem rekur Hótel Adam heldur tékknesks félags.Fjallað verður nánar um málið í Fréttablaði Eflingar sem kemur út í lok sumars.