Ég er vongóður um að risinn vakni – rætt við Guðmund Jónatan Baldursson, nýkjörinn stjórnarmann í Eflingu

17. 07, 2018

[et_pb_section bb_built=“1″][et_pb_row][et_pb_column type=“4_4″][et_pb_text _builder_version=“3.9″]

Guðmundur Jónatan Baldursson var kjörinn í stjórn Eflingar fyrir síðasta aðalfund, af B-listanum. Hann er atvinnubílstjóri, alinn upp á Sogaveginum í Reykjavík. Guðmundur er á sextugasta og fyrsta aldursári, á einn son og tvær dætur. Hann var átta sumur í sveit, á nokkrum stöðum á suðurlandi. Guðmundur hefur unnið við ýmislegt um ævina, verið á sjó, verið forstöðumaður íþróttamannvirkja víða um land og atvinnubílstjóri um í næstum áratug. Hann seldi bílinn sinn fyrir nokkrum árum og hefur hjólað síðan, þ.e. þegar hann er ekki í vinnunni.

Ég byrjaði á sjó á netabát frá Þorlákshöfn, segir Guðmundur. Þar var ég tvær eða þrjár vertíðar. Síðan fór ég á loðnu, á aflaskipinu Guðmundi RE. Eftir það starfaði Guðmundur í nokkur ár hjá Vegagerðinni, en varð síðan forstöðumaður íþróttamiðstöðva á nokkrum stöðum í fimmtán ár. Ég var fyrst á Flateyri, en síðan fluttum við norður á Mývatn um 1995. Guðmundur heyrði af því að verið væri að reisa eina glæsilegustu íþróttamiðstöð landsins, á Þórshöfn á Langanesi og ákvað að sækja um starf forstöðumanns. Þarna er íþróttasalur, þreksalur, sundlaug og fleira. Þar starfaði Guðmundur í nokkur ár, en tók síðan við starfi forstöðumanns í nýju íþróttahúsi á Patreksfirði.

Ekki virkur í félagsstörfum fyrr en nú
Eftir hrun flutti Guðmundur til Noregs, þar sem hann bjó í fjórtán mánuði. Honum líkaði þó ekkert sérstaklega að búa þar og hugurinn leitaði fljótt aftur til Íslands. Eftir að hann kom heim hóf hann að keyra rútu og hefur gert það síðan og starfar nú hjá Snæland Grímssyni og hefur verið þar um nokkurra ára skeið. Ég er búinn að þvælast mikið á þessum tíma, næstum alfarið með útlendinga, mest Bandaríkjamenn.

Guðmundur segist ekki hafa verið virkur í félagsstörfum fram að þessu og ekki tekiðmikinn þátt í störfum verkalýðsfélaga. Ég var að vísu formaður íþrótta- og tómstundaráðs á Patreksfirði um tíma. Það var pólitísk skipun, en ég hef samt aldrei verið mjög virkur í pólitík, hvað sem verður, segir Guðmundur og hlær. Hann segir ástandið á Íslandi ekki nógu gott og það kalli á þátttöku almennings að breyta því. Hér er mikil misskipting og hún hefur vaxið. Maður finnur fyrir því hvað allt er orðið dýrt og sumir eiga virkilega bágt. Það er hluti af skýringunni á því af hverju ég ákvað að taka þátt í starfi Eflingar og gaf kost á mér til setu í stjórn.

Guðmundur segir launin hjá bílstjórum ótrúlega lág, ekki síst miðað við alla þá ábyrgð sem hvíli á rútubílstjórum. Það hafi ekki verið nægilega mikil samstaða í hópnum, menn séu í mörgum félögum. Það hafi þó verið talsvert rætt um það meðal atvinnubílstjóra að efla samstöðuna og taka á launamálunum. Ef laun væru greidd eftir ábyrgð, þá værum við hálaunafólk, segir Guðmundur. Ég held að fólk
geri sér almennt ekki grein fyrir þeirri ábyrgð sem hvílir á rútubílstjórum. Menn geta verið að keyra allt að sjötíu og tveggja manna rútur og athyglin þarf að vera stöðug. Það vann flugstjóri hjá okkur um tíma í afleysingum og ég spurði hann einhvern tíma hvort væri erfiðara, að fljúga þotu eða keyra rútu. Hann þurfti ekkert að hugsa sig um. Rútan væri miklu erfiðari.

Starfið er oft erfitt segir Guðmundur, til viðbótar við að þurfa alltaf að vera með fulla athygli. Þegar hann aki Gullhringinn svokallaða á veturna, keyri Mosfellsheiðina í hálku og þvervindi, þá megi ekkert út af bera. Svona stórir bílar taki gríðarlega mikinn vind á sig. Hvað heldurðu að tímakaupið sé? Við erum með 17-1800 krónur á tímann. Afgreiðslufólk í Bónus er með hærra kaup en við. Við höfum dregist svo langt aftur úr.

Kraftarnir dreifðir í mörgum félögum
Að sögn Guðmundar er hluti vandans sá að bílstjórarnir séu í mörgum félögum. Sumir séu í Eflingu, aðrir í Sleipni og enn aðrir í hinum og þessum félögum. Það sé ekki óalgengt að menn komi úr öðrum störfum og byrji að keyra rútur. Margir þeirra haldi áfram að vera í sínum félögum þótt þeir hætti í starfi á sviði viðkomandi félags og fari að keyra rútu. Ég veit um menn í Félagi bókagerðarmanna, VM, VR og fleiri félögum. Svo eru náttúrulega margir í Eflingu. Þetta er hluti af ástæðunni fyrir því að hópurinn er svona tættur. Guðmundur segir menn ekki hafa ekki verið tilbúna til að fara í eitt félag, eins og Eflingu. Ég hef upplifað félagið dálítið eins og sofandi risa. Í röðum bílstjóra hefur verið rætt um að deildarskipta því, þannig að bílstjórar verði í sérdeild. Við höldum að starfið í kringum t.d. bílstjórana geti orðið markvissara með deildaskiptingu og hægt verði að lífga við þann risa sem Efling er. Í júní verður haldinn fundur þar sem ætlunin er að fá fram hugmyndir frá bílstjórum og kynna fyrir þeim vinnuna í aðdraganda kjarasamninganna. Hann segist vona, að gangi það eftir að stofnuð verði sérstök deild atvinnubílstjóra, þá sjái bílstjórar sem eru í öðrum félögum sér hag í að ganga í Eflingu. Það væri kjörstaðan, segir Guðmundur, því slagkrafturinn hlýtur að aukast með auknum fjölda.

Ég er vongóður um að risinn vakni, segir Guðmundur. Ég er í rauninni sannfærður um það. Þau viðbrögð sem við höfum upplifað í kjölfar stjórnarskiptanna vekja miklar vonir. Ef það tekst að stilla saman strengi með öðrum stórum og öflugum félögum, svo sem eins og VR, þá getum við haft gríðarleg áhrif. Hann segir að það eigi ekki bara við um kaupið. Til dæmis geti stór félög beitt áhrifum sínum gagnvart fyrirtækjum sem hækka vörur án málefnalegra ástæðna. Þá vilji hann að félagið hvetji félagsmenn til að beina viðskiptum sínum annað. Sameiginlega eigum við gefa fyrirtækjum rautt spjald ef þau fara fram með ósanngjörnum hætti.

Að lokum er Guðmundur spurður hvort hann búist við hörðum átökum á vinnumarkaði um áramótin. Ég vona svo sannarlega ekki, en það gæti samt farið svo. Ég er viss um að ríkisvaldið þarf að koma mjög kröftuglega til móts við okkur í tengslum við samningana. Fjármálaráðherra hefur sagst vera tilbúinn til að lækka tekjuskattinn um 1%, en auðvitað væri betra fyrir okkur að hækka skattleysismörkin. Og það skiptir líka mjög miklu máli að fylgjast vel með verðlagi í kjölfarið. Félögin verða að standa saman um að passa að verðlag verði ekki hækkað upp úr öllu valdi strax daginn eftir að skrifað er undir samninga.

[/et_pb_text][/et_pb_column][/et_pb_row][/et_pb_section]