Fundur formanns með Herdísi Baldvinsdóttur um lífeyris- og verkalýðsmál

Sólveig Anna Jónsdóttir og Herdís Baldvinsdóttir ræddu saman á skrifstofum Eflingar 2. júlí 2018

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, átti í dag fund með Dr. Herdísi Baldvinsdóttur, einum helsta sérfræðingi landsins í málefnum lífeyrissjóða. Herdís ritaði á sínum tíma doktorsritgerð sem bar heitið Networks of Financial Power in Iceland: The Labour Movement Paradox en þar benti Herdís á þá mótsagnakenndu stöðu sem íslenska verkalýðshreyfingin er í sökum beinnar aðkomu sinnar að risavöxnum fjárfestingasjóðum sem eru afar stórtækir gerendur í íslensku atvinnulífi.

Á fundinum ræddu Sólveig Anna og Herdís um eðli lífeyrissjóðakerfisins og þróun þess síðustu ár, sem og þá nýju möguleika sem skapast hafa með nýrri forystu í verkalýðshreyfingunni. Þá ræddu þeir um hugsanlega aðkomu lífeyrissjóðanna að húsnæðisleigumarkaði í anda þess sem fram kom í nýlegu erindi Ólafs Margeirssonar hagfræðings á vefum Eflingar. Þá ræddu þær um þau neikvæðu viðbrögð sem rannsóknir Herdísar vöktu á sínum tíma en hún var m.a. uppnefnd í fjölmiðlum af fjölmiðlafulltrúa ASÍ.

Af tilefni fundarins sagði Sólveig Anna: „Doktorsritgerð Herdísar Baldvinsdóttur um lífeyrissjóðina er grundvallarrit og ein af fáum fræðilegum úttektum á íslensku þar sem fjallað er á gagnrýnin hátt um þær mótsagnir sem óhjákvæmilega þrúga lífeyrissjóðakerfið. Hér er um augljósan vanda að ræða sem fylgt hefur sjóðunum frá upphafi og tryllingsleg viðbrögð forystu ASÍ gegn skrifum Herdísar eru sorglegur kafli í sögu verkalýðshreyfingarinnar. Rannsóknir Herdísar eiga jafnvel enn meira erindi nú þegar von er á endurskoðun og umbótum í lífeyrissjóðakerfinu, til dæmis varðandi hugsanlega aðkomu þeirra að uppbyggingu leigumarkaðar.“