Efling gagnrýnir misnotkun kjarasamingsákvæða í veitingageiranum

24. 08, 2018

„Kjarmálasvið Eflingar – stéttarfélags hefur vart undan að sinna umkvörtunum félagsmanna sem fá greitt vaktaálag fremur en yfirvinnuálag jafnvel þótt hvorki sé til að dreifa ráðningarsamningi né vaktaplani“ segir í ályktun stjórnar Eflingar.
Á fundi stjórnar Eflingar þann 23. ágúst var eftirfarandi ályktun samþykkt:„Stjórn Eflingar – stéttarfélags lýsir miklum áhyggjum af vanefndum fjölmargra atvinnurekenda í veitingahúsageiranum og víðar á ákvæðum um vaktavinnu í 3. kafla kjarasamnings vegna starfsfólks í veitinga- og gistihúsum. Kjarmálasvið Eflingar – stéttarfélags hefur vart undan að sinna umkvörtunum félagsmanna sem fá greitt vaktaálag fremur en yfirvinnuálag jafnvel þótt hvorki sé til að dreifa ráðningarsamningi né vaktaplani líkt og ákvæði samnings gera þó skýrt ráð fyrir. Efling – stéttarfélag kallar eftir því að ákvæðið og þær heimildir sem í því felast verði endurskoðaðar frá grunni, með þann möguleika í huga að krefjast afnáms þess hljóti sú tillaga hljómgrunn meðal félagsmanna í aðdraganda kjaraviðræðna.“Ályktunin vísar til 3. kafla Kjarasamnings milli Samtaka atvinnulífsins og Eflingar stéttarfélags og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis vegna vinnu starfsfólks í veitinga- og gistihúsum og hliðstæðri starfsemi en samningurinn er í gildi fram til loka árs 2018 líkt og aðrir helstu kjarasamningar á almennum vinnumarkaði. Lesa má nánar um samninginn á heimasíðu Eflingar hér. Samningurinn kveður skýrt á um viss skilyrði sem atvinnurekandi þarf að uppfylla hyggist hann greiða starfsmanni vaktaálag fremur en yfirvinnuálag, en vaktaálag er lægra en yfirvinnuálag. Gera þarf ráðningarsamning og vaktaáætlun þarf að liggja fyrir, ella er óheimilt að nýta sér ákvæðið.Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði eftirfarandi í tilefni ályktunarinnar: „Það er staðreynd að margir veitingahúsaeigendur leyfa sér að í raun og veru stela samningsbundnum launum af starfsfólki sínu. Þetta gera þeir iðulega með því að greiða vaktaálag í stað yfirvinnu þegar það er ekki heimilt. Vaktavinnuákvæðið í samningi okkar við SA vegna starfsfólks á veitingahúsum hefur því miður orðið að skálkaskjóli fyrir kerfisbundið fúsk. Kjaramálasvið okkar er með fjölmörg dæmi þar sem það er augljóst að atvinnurekendur eru vísvitandi að misnota ákvæðið. Við höfum þurft að leiðrétta launaútreikning fyrir hvern starfsmanninn á fætur öðrum hjá sama atvinnurekanda. Þegar vilji til að uppfylla ákvæði samninga er ekki fyrir hendi og þau eru kerfisbundið misnotuð er augljóst að það þarf að aðhafast. Endurskoðun samninga í vetur þarf að taka þetta inn í myndina, annað kemur ekki til greina.“