Líf lágtekjufólks og verkafólks er líf skuldsetningar – leiðari formanns í 5.tbl. Eflingar

Leiðari formanns í 5.tbl. 2018

Líf lágtekjufólks og verkafólks er líf skuldsetningar

Á Íslandi, líkt og annars staðar í veröldinni, þarf stétt verka- og láglaunafólks að glíma við ýmiskonar óréttlæti. Fjármagnseigendur ráða lögum og lofum í efnahagslífinu og fara að mestu sínu fram. Fyrir rétt rúmum tíu árum síðan skall hér á djúp og hrikaleg kreppa vegna þess að alþjóðlegt, afregluvætt fjármálakerfi, rekið af fjölþjóðlegri stétt fjármagnseigenda, sprakk í loft upp og rústirnar hrundu yfir okkur, almenning.Hrunið hafði gríðarmiklar afleiðingar í för með sér fyrir okkur; atvinnumissi, tekjumissi og ekki síst húsnæðismissi. Afleiðingarnar voru þó ekki aðeins fjárhagslegar eða efnahagslegar, því það lagðist líka þungt á andlega og líkamlega heilsu fólks. Rannsóknir, meðal annars Örnu Hauksdóttur við Háskóla Íslands, hafa sýnt að heilsu fólks, sérstaklega kvenna, hrakaði mikið í kjölfar hrunsins. Það má leiða að því líkum að þau heilsufarsvandamál sem við sjáum nú á vinnumarkaði og vaxandi nýgengi örorku megi að einhverju leyti rekja til þess gríðarmikla álags sem fylgdi því óöryggi og áhyggjum sem hrun fjármálakerfisins lagði á íslenska alþýðu.En þó það séu liðin tíu ár frá hruninu lifir stór hluti almennings enn við sama álag. Af löngum lista um það sem grefur undan möguleikum okkar til að öðlast efnahagslegt öryggi eru tvö atriði sem vert er að nefna hér. Eitt er hin svokallaða séreignastefna sem rekin hefur verið á íslenska húsnæðismarkaðnum. Ein afleiðing hennar er sú að leigumarkaðurinn er bæði vanþróaður og skelfilega dýr. Tekjulágu fólki er gert að sætta sig við að greiða ríflega helming ráðstöfunartekna í húsaleigu og oft meira. Fólk sekkur í djúpa skuldasúpu til þess eins að standa straum af eðlilegum daglegum heimilisútgjöldum, hvað þá ef fólk þarf skyndilega að mæta óvæntum útgjöldum. Eina leiðin út af leigumarkaðnum er svo frekari skuldsetning, ef fólk er svo „heppið“ að hljóta náð fyrir augum lánastofnanna.Rót vandans er sú að í samfélagi nýfrjálshyggjunnar fær fólk ekki borguð laun sem endurspegla hvað það í raun kostar að lifa mannsæmandi lífi, koma sér þaki yfir höfuðið og halda heimili. Þess í stað er fólki boðið aðleysa fjárhagsvandamál með því að skuldsetja sig. Þessi mikli aðgangur að lánsfé er einmitt eitt af einkennum fjármálavæðingar, og augljós afleiðing óréttlátrar skiptingar gæðanna. Fjármagnseigendur sölsa til sín stöðugt stærri hluta af þeim verðmætum sem verkafólk býr til, og bjóðast svo til að lána þau til baka, auðvitað gegn okurvöxtum.Til þess að kóróna óréttlætið hefur hér á landi verið búið svo um hnútana að fjármagnseigendur geta stundað sína okurlánastarfsemi nokkurnveginn áhættulaust. Síðan verðtryggingunni var komið á hafa fjármagnseigendur getað gengið út frá því sem vísu að fá „raunvirði“ peninganna greitt að fullu til baka.Þá er komið að hinu atriðinu sem er verðtryggingin. Hún gerir það að verkum fjármagnseigendur eru tryggðir fyrir verðfalli peninganna, og endurgreiðsluáhættan er lítil sem engin, enda vita allir sem lentu í skuldakröggum haustið 2008 að lánastofnanir ganga að veðum og ábyrgðarmönnum af fullri hörku. Almenningur fær hins vegar áfram að axla að fullu áhættuna sem felst í ótryggu verðgildi peninganna.Á sama tíma geta kapítalistarnir auðvitað komið sér hjá því að borga sínar skuldir.Okkur eru í fersku minni allir þeir milljarðar sem afskrifaðir voru hjá útrásarvíkingum og gæðingum þeirra eftir hrun, á sama tíma og skuldir heimilanna hækkuðu um 400 milljarða, þökk sé verðtryggingunni.Þrátt fyrir ævintýralegar afskriftir og útlánatöp til allra handa fjárfestingarfélaga hafa bankarnir skilað 700 milljörðum í hagnað frá hruni, meðal annars vegna verðtryggingarinnar og þess að geta ávallt gengið að stórum hluta af tekjum alþýðunnar vísum.Misréttið í samskiptum okkar og fjármagnseigenda er eitt af stærstu verkefnum þeirrar stéttabaráttu sem nú er framundan. Að hér séu í umferð annars vegar verkamannakróna sem ekki er hægt að stóla á og svo hins vegar verðtryggð fjármagnseigendakróna gengur ekki lengur. Það er fyrir löngu tímabært að verkalýðshreyfingin beiti sér af öllu afli til að útrýma þessu grundvallaróréttlæti í íslensku samfélagi.Sólveig Anna Jónsdóttirformaður Eflingar-stéttarfélags