Vilja kanna grundvöll fyrir samstarfi Eflingar, VR og SGS – ályktun stjórnar Eflingar-stéttarfélags

Ályktun af fundi stjórnar Eflingar- stéttarfélags, 6. september 2018

Stjórn Eflingar – stéttarfélags felur formanni og forystu félagsins að kanna grundvöll þess að efna til samflots í kjaraviðræðum milli tveggja stærstu hópa launafólks á Íslandi, almenns verkafólks innan Starfsgreinasambandsins og verslunarfólks innan VR og Landssambands verslunarmanna. Það er mat stjórnar Eflingar að slíkt samflot, á grunni málefnalegs samhljóms, myndi færa verkalýðshreyfingunni mikinn styrk og slagkraft í viðræðum við bæði atvinnurekendur og stjórnvöld.

Í tilefni af þessari ályktun sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar: Ég fagna þessari ályktun stjórnar Eflingar gríðarlega. Það hefur myndast mjög gott samband milli nýrrar forystu VR og Eflingar, tveggja stærstu félaga launafólks á Íslandi, og í því felast miklir möguleikar sem landssamtökin hljóta að geta nýtt sér líka. Með samfloti SGS og VR eða Landssambands verslunarmanna yrði til mögulega öflugasta bandalag sem sést hefur í kjarasamningum á Íslandi. Ég trúi því heitt og innilega að samhljómurinn milli Eflingar og VR sé eitthvað sem eigi einnig að nást innan landssambandanna enda stöndum við alltaf sterkari sameinuð. Hækkun lægstu launa, breytingar á bóta- og skattkerfinu fyrir hina tekjulægstu, umbætur á fjármálakerfinu og stórtækar aðgerðir í húsnæðismálum – allt eru þetta atriði sem ég trúi ekki að nokkur maður geti lagst gegn innan míns landssambands, Starfsgreinasambandsins. Ég er mjög spennt að sjá hvert þetta geti leitt okkur og mun tala fyrir þessu innan SGS.