Efling samþykkti í júní að færa sjóði frá Gamma

10. 10, 2018
Frétt Markaðarins er á villigötum því ný stjórn Eflingar samþykkti strax í júní að taka sjóði úr stýringu hjá hinu umdeilda fyrirtæki Gamma.

Í frétt fylgikálfs Fréttablaðsins „Markaðurinn“ þann 10. október 2018 er ritað um sjóði Eflingar og þá staðreynd að vel á annan milljarð króna hefur verið fjárfest hjá fyrirtækinu Gamma. Núverandi stjórn Eflingar tók þá ákvörðun á stjórnarfundi þann 7. júní síðastliðinn að láta færa alla sjóði úr stýringu hjá Gamma. Bókun stjórnar í fundargerð er svohljóðandi: „Samþykkt er að fela fjármálastjóra að taka fjármuni Eflingar út úr stýringu hjá Gamma og fjárfesta annars staðar í samræmi við lög og reglur félagsins.“

Daníel Örn Arnarson stjórnarmaður bar tillöguna upp. Í umræðum stjórnar um málið kom fram að umfjallanir um starfsemi Gamma í fjölmiðlum væru þess eðlis að umdeildanlegt væri að eiga í viðskiptum við fyrirtækið.

Vegna fréttar Markaðarins sagði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar: „Mér finnst kostulegt að sjá málpípur auðvaldsins gagnrýna Eflingu án þess að vita neitt í sinn haus. Datt þeim ekki í hug að hafa samband til að sannreyna meiningar sínar um áherslur nýrrar stjórnar? Að sjálfsögðu er engin auðveld leið fyrir verkalýðsfélag að eiga og ráðstafa sjóðum í kapítalísku samfélagi. En að eiga í viðskiptum upp á milljarða við fyrirtæki sem byggist á fjárplógsstarfsemi gegn okkar fólki, lágtekjufólki á leigumarkaði, er fullkomlega óboðlegt og auðvitað hættum við því strax.“

Fjölmiðlar hafa fjallað um fyrirtækið Gamma, samanber umfjallanir Stundarinnar um athafnir þess á leigumarkaði og náin tengsl við Sjálfstæðisflokkinn.