Markaðurinn leysir ekki vandann

31. 10, 2018

Sigurður H. Einarsson, félagi í samninganefnd Eflingar skrifar um þjóðarátak í húsnæðismálum. Í komandi kjarasamningum þarf það að vera alveg ljóst að engir samningar verði gerðir nema til komi þjóðarátak í húsnæðismálum. Samkvæmt tölum frá slökkviliðinu er nú talið að um 6 þúsund manns búi í iðnaðarhúsnæði eða öðrum hreysum. Þá er einnig dæmi um að 179 menn, félagsmenn Eflingar, séu skráðir til heimilis í einu einbýlishúsi í Breiðholtinu. Hvar eiga þeir heima í raun? Hvernig er þetta hægt?Lífeyrissjóðirnir fjármagna okurleigulánafélöginAðrir eru ofurseldir okurleigufélögum sem eru að mergsjúga okkar fólk. Talið er að um 50 þúsund manns séu á leigumarkaðinum og ónefnd er sú tala ungs fólks sem ekki kemst að heiman. Og lífeyrissjóðirnir okkar fjármagna okurleigulánafélögin.Árið 2002 var verkamannabústaðakerfið lagt niður af ríkisstjórn Davíðs Oddsonar. Þáverandi félagsmálaráðherra Páll Pétursson hélt því fram að aflagning verkamannabústaðakerfisins væri eitt mesta framfaraspor í húsnæðismálum Íslendinga. Nú er ljóst að væri þetta kerfi til í dag værum við með 20 þúsund íbúðir utan okurleigumarkaðarins. Það væri nú aldeilis búbót fyrir okkar fólk.Til að leysa þann vanda sem við stöndum frammi fyrir nú þarf með kröftugum hætti að reisa hér upp félagslegt íbúðarhúsnæði í anda Verkamannabústaðakerfisins eða útvíkka Húsnæðisfélagið Bjarg svo um munar.Við skulum athuga að til að vera gjaldgengur í Bjarg má einstaklingur ekki vera með tekjur yfir 420 þúsund á mánuði. Það þýðir að manneskja á meðallaunum Eflingar er ekki gjaldgeng hjá húsnæðisfélaginu. Bjarg er leigufélag fyrir þá allra tekjulægstu. Leiga á að vera val en ekki kvöð og að því þarf að stefna. Að slíku verkefni verða að koma ríkið, sveitarfélögin, lífeyrissjóðirnir og verkalýðsfélögin.Það má rifja upp þá kröfu sem verkalýðshreyfingin setti fram á ráðstefnu um húsnæðismál árið 1973 að auka þyrfti framboð á leiguhúsnæði, en talið var að á þessum tíma byggi um fimmtungur þjóðarinnar í slíku húsnæði. Brýnt væri að leysa vanda íbúðarleigjenda, enda byggju margir þeirra við óviðunandi kjör og hér þyrfti „snöggt og mikið átak“. Sérstaklega var hvatt til þess að lífeyrissjóðirnir mynduðu sameignar- eða samvinnufélög og stæðu fyrir húsbyggingum fyrir félagsfólk sitt. Lögð var áhersla á að þær íbúðir væru fyrst og fremst leiguíbúðir“ (Sumarliði Ísleifsson: Til velferðar. Saga Alþýðusambands Íslands 2. bindi, bls.117-18).Ekki staðið við loforð síðustu kjarasamningaÍ síðustu kjarasamningum var samið um að byggðar yrðu 2.300 íbúðir á árunum 2016 til 2019. Þetta er of lítið og hefur auk þess ekki verið staðið við. Í fjárhagsáætlun fram til ársins 2021 dugir fjárframlagið aðeins fyrir 300 íbúðum ári en ekki 600 eins og lofað var, þrátt fyrir að það væri allt of lítið. Þetta er samkomulag sem þarf að standa við og í raun að fara að rukka um strax því þetta er fyrir utan komandi samningana.Kröfur verkalýðshreyfingarinnar eins og fram kemur í kröfugerðum SGS og VR eru einnig um lækkun vaxta. Gróði bankana undanfarin ár er komin út úr öllu korti. Við gerum þá kröfu á ríkisstjórn Íslands sem er einn stærsti eigandi bankanna að hún lækki vexti af húsnæðislánum. Þessir vextir eru bæði íþyngjandi og valda ofurhárri leigu. Framlag ríkisstjórnarinnar á tvímælalaust að vera að láta lækka vexti. Það verða að vera takmörk fyrir því hvað gróði bankana er mikill. Þá þarf að aðskilja viðskiptabanka frá húsnæðisbankalánum. Það gengur ekki að húsnæðislán borgi upp tap banka á braski og áhættufjárfestingum.Til stuðnings þessum kröfum þurfa samtök leigjenda að stóreflast. Þau eiga að fá hluta af fjármagnstekjuskatti til að byggja upp öflug samtök sem fái lögbundinn samningsrétt gagnvart stóru leigufélögunum. Einnig þarf að setja þak á leiguverð og gera skammtímaleigusamninga ólöglega þannig að ekki verði hægt að segja upp leigutaka með því eina markmiði að hækka leiguna.Ari Skúlason, þáverandi framkvæmdastjóri ASÍ, hélt því fram árið 2000 að áhrif verkalýðshreyfingarinnar hefðu minnkað síðastliðinn áratug. „Það er ekki hlustað jafnt grannt á það sem við segjum og áður“ sagði hann. Þau orð hans ríma vel við það hvernig húsnæðismálin þróuðust. Frá öndverðu hafði sú hugmynd fylgt íslenskri verkalýðshreyfingu að félagslegar eignaríbúðir væru besti kostur í húsnæðismálum fyrir láglaunafólk. Þeirri hugmynd var kastað fyrir róða án þess að hlustað væri á hagsmuni verkafólks. Segja má að félagslegt leiguhúsnæði hafi eftir þetta orðið helsti valkostur fólks með lágar tekjur. Til að mæta þessum nýja veruleika þarf að tryggja jafnræði á milli leiguhúsnæðis og eignaríbúða en stuðningur stjórnvalda við þá sem leigja hefur alltaf verið mun minni.Það er alveg ljóst í mínum huga að ég mun ekki samþykkja neina samninga nema til komi þjóðarátak í húsnæðismálum. Til að svo megi verða þurfa margir að koma að verkinu, ekki síst ríkissjóður og lífeyrissjóðirnir.Greinin birtist fyrst á www.stundin.is