Vaxandi ójöfnuður og auknar byrðar á hina verst settu (MYNDBAND)

26. 10, 2018

[et_pb_section bb_built=“1″ _builder_version=“3.0.47″ custom_padding=“0|0px|54px|0px|false|false“][et_pb_row _builder_version=“3.0.48″ background_size=“initial“ background_position=“top_left“ background_repeat=“repeat“ custom_padding=“8px|0px|27px|0px|false|false“][et_pb_column type=“4_4″][et_pb_text _builder_version=“3.0.74″ background_size=“initial“ background_position=“top_left“ background_repeat=“repeat“]

Stefán Ólafsson hefur orðið þekktur fyrir að rannsaka hluti sem eiga ekki að vera til. Vaxandi ójöfnuður, stéttaskipting, óréttlátt skattkerfi og auknar byrðar á hina verst settu hafa verið meðal viðfangsefna hans. Í sumar flutti hann erindi á vegum Eflingar um nýútkomna bók þeirra Arnaldar Sölva Kristjánssonar um ójöfnuð á Íslandi, upptöku af erindinu má sjá hér fyrir neðan. Hann hefur síðan tekið til starfa hjá Eflingu við rannsóknir og ráðgjöf. Benjamín Julian settist með honum á skrifstofu stéttarfélagsins til að forvitnast um hvað bjátar á á Íslandi, hvernig megi bæta það, og hvað verður um háskólakennara þegar þeir fara að stíga á valdamiklar tær.

Hvernig gerðist það að þú fórst að rannsaka misskiptingu?
Ég helgaði mig fyrst bara akademískum starfsferli, og fylgdist með athyglisverðri þróun samfélagsins og lífskjara sérstaklega. Það var algerlega fyrir tilviljun árið 2005 að ég uppgötvaði hvað var að gerast í skattkerfinu. Öryrkjabandalag Íslands hafði beðið mig að gera úttekt á þróun lífskjara öryrkja og ég sótti mér gögn til að athuga það. Þá sá ég að skattbyrði þeirra hafði stóraukist á tímabilinu 1995-2004. Ég varð gáttaður og fór að gá hvernig í heiminum gæti staðið á þessu. Hvergi var talað um að stjórnvöld hefðu þetta sem stefnu, þvert á móti. Frjálshyggjan sagði að hún ætlaði að lækka skatta á alla, en í raun var verið að færa hana frá hátekjuhópum yfir á lágtekjuhópa, og hlutfallslega langmest á þá allra lægstu. Svo ég fór að skrifa greinar og skýrslur um þetta.

Eignaðistu marga vini þegar þú bentir á þetta?
Ég eignaðist ekki marga vini, frekar óvini, þegar ég fór að skrifa um þetta. Morgunblaðið, Viðskiptablaðið, stjórnmálamenn á þingi snérust gegn þessu og reyndu að afflytja niðurstöðurnar. Fjármálaráðherra bar á mig árið 2007 að ég kynni ekki að reikna, en ég hafði einungis birt tölur beint frá OECD. Ég reiknaði þær ekki einu sinni sjálfur! Á þeim tíma var mikið fúsk í stjórnsýslunni, fjármálaráðherrann beitti ráðuneytinu sínu til að blekkja með villandi talnabirtingum um þróun skattbyrðar.

Nú hefur verkalýðshreyfingin hert á kröfum sínum, sem sjá má í nýrri kröfugerð Starfsgreinasambandsins. Má gera ráð fyrir sams konar viðbrögðum?
Ég myndi reikna með því að ný stefna verkalýðsfélaganna veki hörð viðbrögð úr þessum áttum.

Kröfugerð SGS fer fram á að ójöfnuður aukist ekki á samningstímabilinu, og að fjármagnstekjur verði teknar með í reikninginn. Hvers vegna er svo oft horft framhjá fjármagnstekjum þegar talað er um ójöfnuð?
Þetta er sterk viðleitni hér og partur af skipulögðum málflutningi ráðandi hagsmunaafla að horfa framhjá ójöfnuði. Vöxtur fjármagnstekna fram að hruni  fól í sér ⅔ af aukningu ójöfnuðar, sem var afar mikill á þeim tíma. Þetta eru hlutir eins og söluhagnaður hlutabréfa, arðgreiðslur og leigutekjur, sem eignamesta og tekjuhæsta fólkið fær. Skattlagning fjármagnstekna var 10% þegar hæsta álagning á atvinnutekjur var um 47%. Áður var þetta að mestu leyti skattlagt eins og atvinnutekjur.

Hvers vegna er borgaður meiri skattur af launum, sem maður þarf að vinna fyrir, en arðgreiðslum, sem maður þarf ekki að vinna fyrir?
Þeir sem þiggja svona tekjur segja oft að þeir séu að láta fjármagnið vinna fyrir sig — svo þeir þurfi ekki að vinna sjálfir! Þá er hægt að leika golf á daginn í staðinn. Þessi misjafna meðferð í skattkerfinu gengur auðvitað gegn öllum venjulegum skilningi á jafnræði. Þessir skattar voru lækkaðir sem svar við áróðri frjálshyggjunnar. Rökin voru að fólk myndi flýja úr landi með starfsemi og auð, svo einn lægsti skattur Vesturlanda var settur hér á fjármagnstekjur, tíu prósent. Reynslan var samt að einna mest fé flæddi frá Íslandi af vestrænum ríkjum, þótt skatturinn væri svona lágur.

Hvað gera auðmenn við allan þennan pening?
Hann fer í eignasöfnun, hér og erlendis. Hann fer í dýra neyslu. Fólk lifir hátt eins og við sáum á árunum fram að hruni, keypti sér einkaþotur, dýrar snekkjur í Miðjarðarhafinu og Karíbahafinu og byggði glæsivillur sem sumarhús. Svo er ríkt fólk í hörðu lífsgæðakapphlaupi, hver á lengstu snekkjuna og svo framvegis. Svo notar fólk auðvitað auðinn til að kaupa völd.

Hvaða áhrif hefur ójöfnuður á stjórnmál?
Það er beint samband milli aukins ójafnaðar og tilhneigingar til auðræðis. Þegar auðmenn geta keypt sér áhrif í stjórnmálum, þá grefur það undan lýðræðinu. Í Bandaríkjunum sést þetta hvað skýrast, þar sem auðmenn skipta stjórnmálamönnum upp eftir því hverja þeir eiga. Hinir vellauðugu Koch-bræður gera þetta jafnvel opinberlega. Þetta er heilmikil ógnun við lýðræðið.

Hvað verður um lýðræði ef ekki verður tekið í taumana?
Við erum komin í það ástand að alþjóðlegi fjármálamarkaðurinn er kominn með öll völd í heiminum, og rassskellir einfaldlega ríkisstjórnir. Við þurfum að brjótast úr þessu, annars verður lýðræðið bara brandari. Ég held einmitt að við höfum sérstakar aðstæður á Íslandi til að breyta þessu í meiri mæli en aðrar þjóðir, því við höfum óvenju sterka og fjölmenna verkalýðshreyfingu hér.

Hvað er verkalýðshreyfingin að gera til að lagfæra ástandið?
Þessi nýja kröfugerð Starfsgreinasambandsins endurspeglar alger umskipti í verkalýðshreyfingunni. Þetta eru allt kröfur um að hafa bein áhrif á þróun þjóðfélagsins. Enda er það þannig að ef stjórnvöld gefa allt eftir gagnvart þrýstingi frá atvinnurekendum og fjárfestum, þá á það að vera verkefni hreyfingar launafólks að toga ríkisvaldið til baka til að sinna betur almannahag. Hreyfingin er fulltrúi alls þorra almennings hér á landi. Af hverju ætti Sjálfstæðisflokkurinn að ráða öllu í landinu þegar verkalýðsfélögin hafa á bak við sig 90% almennings? Þau eru miklu meiri fulltrúi fólksins en flokkarnir þrír sem sitja í ríkisstjórn. Það er vel viðeigandi á tímum þar sem stjórnvöld hafa orðið fórnarlömb sérhagsmuna, að fjöldasamtök launafólks rétti kúrsinn af.

 

[/et_pb_text][et_pb_video src=“https://www.youtube.com/watch?v=YbV59pXsfF4″ _builder_version=“3.9″]
[/et_pb_video][et_pb_text _builder_version=“3.9″]

Erindi Stefáns Ólafssonar hjá Eflingu 4. júní 2018.

[/et_pb_text][/et_pb_column][/et_pb_row][/et_pb_section]