Sameiginlegt vinnustaðaeftirlit Eflingar og VM, FIT og Rafiðnarsambandsins á föstudag leiddi til þess að byggingarsvæði City Park Hótel í Ármúla var lokað samdægurs af Vinnueftirliti ríkisins. Upphaflega barst tilkynning um að hlutir væru ekki á lagi á svæðinu frá félagsmanni eins af stéttarfélögunum, og fór sameiginlegt vinnustaðaeftirlit félagana á staðinn í kjölfarið.Ingólfur B. Jónsson eftirlitsfulltrúi Eflingar lýsti aðbúnaðinum svo: „Við heimsóknina í Ármúla sáum við að ekki var allt með felldu. Þar var ekkert byggingarleyfi eða framkvæmdaleyfi til staðar og framkvæmdirnar komnar vel á veg. Við upplýstum starfsmennina um þeirra réttindi og spurðumst fyrir hver laun þeirra væru og hvort þeim væri séð fyrir húsnæði. Þá kom í ljós að þeir sofa á verkstað í hliðarherbergjum. Fannst okkur aðbúnaðurinn ekki við hæfi og því kölluðum við í Vinnueftirlitið sem kom og lokaði verkstaðnum. Starfsmenninir voru upplýstir um að þeir ættu að halda fullum launum á meðan verkstöðvun stendur yfir og ef að þeir fengju ekki greitt ættu þeir að leita til stéttarfélaganna.“Í frétt á vef Vinnueftirlitsins kemur fram að „aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi starfsmanna var ekki í samræmi við lög og reglur“ á umræddu byggingarsvæði og var öll vinna bönnuð við byggingarframkvæmdir, „þar sem veigamikil öryggisatriðið voru í ólagi og öryggisstjórnunarkerfi á verkstað ófullnægjandi.“ Þá segir í fréttinni að mat Vinnueftirlitsins hafi verið að veruleg hætta væri fyrir líf og heilbrigði starfsmanna. Í viðhengi við frétt Vinnueftirlitsins má lesa ítarlega ákvöðun í heild sinni.