Yfirlýsing vegna umfjöllunar í fjölmiðlum um skrifstofu Eflingar

11. 10, 2018

Á síðustu dögum hefur farið fram umfjöllun í fjölmiðlum um starf skrifstofu Eflingar. Hefur sú umræða á köflum verið óvönduð og æsingakennd. Við, formaður og framkvæmdastjóri félagsins, höfum átt góð og hreinskiptin samtöl um þetta á trúnaðarráðsfundi og félagsfundi á þriðjudagskvöld og síðast á starfsmannafundi í morgun, fimmtudag. Á þessum fundum hefur komið fram að starfsfólki og félagsmönnum Eflingar sárnar skiljanlega sú neikvæða umfjöllun sem átt sér hefur stað um vinnustaðinn og félagið.

Okkur þykir mjög miður að heiður og æra starfsmannahóps Eflingar í heild hafi verið dregin í efa á opinberum vettvangi. Slíkt er að ósekju. Við berum traust til starfsfólks Eflingar, sem vinnur mjög gott og vandað starf við að vernda hagsmuni verkafólks, oft undir miklu álagi.

Við þökkum þann skilning og þolinmæði sem starfsfólk Eflingar hefur sýnt vegna breytinga og nýrra áherslna í starfi félagsins.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar