Félagsmaður Eflingar sýknaður

20. 02, 2019

Í seinustu viku var kveðinn upp dómur í máli Alþjóðlegra bifreiðatrygginga á Íslandi gegn félagsmanni Eflingar, Davíð Eiríki Guðjónssyni.

Davíð sem starfaði hjá JH verki ehf. lenti í árekstri á vinnutíma á bifreið í eigu fyrirtækisins. Davíð var í órétti og bíllinn sem hann ók var óvátryggður. Af þeim sökum kom það í hlut Alþjóðlegra bifreiðatrygginga á Íslandi sf. (ABI), sem er í eigu íslenskra vátryggingafélaga, að borga tjónið á bifreiðinni sem Davíð keyrði á. ABI beindi í framhaldi endurkröfu að Davíð sem ökumanni bifreiðarinnar. Undir venjulegum kringumstæðum hefði endurkröfu verið beint að JH verki ehf. eiganda bílsins, en þar sem félagið var orðið gjaldþrota var kröfunni beint að Davíð sem ökumanni.

Davíð sem leitaði til lögmanna Eflingar var í síðustu viku sýknaður af kröfum ABI og félagið dæmt til að greiða tæpar 1,1 milljón króna í málskostnað. ABI var í aðdraganda málsóknarinnar ítrekað hvatt til þess að falla frá kröfunni, án árangurs. Dómurinn féllst á röksemdir stefnda í málinu og telur engar forsendur vera til þess að starfsmaðurinn eigi að bera tjónið. Vísar dómurinn í því sambandi til 2., sbr. 1. mgr. 23. gr. skaðabótalaga og metur það sanngjarnt að skaðabótaábyrgð Davíðs verði felld niður.

Karl Ó. Karlsson, lögmaður Eflingar segir mikilvægt að búið sé að fá úr því skorið fyrir dómi að ekki sé hægt að beina kröfu að starfsmanni undir þessum kringumstæðum, enda séu eflaust margir starfsmenn sem keyri um á bifreiðum í eigu vinnuveitanda vinnu sinnar vegna, óafvitandi um að bifreiðarnar séu óvátryggðar.