Vegna frétta um starfsmannaleiguna Menn í vinnu

Í fréttum í gær var sagt frá ömurlegum aðstæðum fólks hjá starfsmannaleigunni Menn í vinnu. Tugir starfsmanna frá Rúmeníu hírast í herbergjum, allt að tíu saman, en borga þó fimmtíu þúsund krónur á mánuði fyrir. Í ráðningarsamningi frá fyrirtækinu sem Efling-stéttarfélag hefur undir höndum er klausa sem segir að undirritaður skuldi leigu sem Menn í vinnu megi draga frá launum, án þess að upphæð eða nokkurs konar leiguvernd sé tiltekin.

Efling hefur lengi beitt sér gegn margítrekuðum brot á kjarasamningum, sem framin eru í skjóli óljósra samninga, útleigu á starfsfólki og skorts á sektarheimildum. Kröfugerð Eflingar, sem samin var af almennum félagsmönnum í haust, benti á mörg úrræði og hafa þau verið rædd við Samtök atvinnulífsins í yfirstandandi kjaraviðræðum. Í kröfugerð er þess meðal annars krafist að heimilt sé að innheima sektir vegna alvarlegra brota á kjarasamningi.

„Fólk spyr sig hvers vegna þetta gerist aftur og aftur hjá sömu fyrirtækjunum,“ segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar. „Ástæðan er að það eru engin viðurlög. Við tjáðum Samtökum atvinnulífsins að við viljum heimila sektir við brotum á kjarasamningi í viðræðum í síðustu viku, og fengum dræmar undirtektir þar. Sjómenn hafa slíkt ákvæði í sínum samningi við SFS. Hvers vegna vilja Samtök atvinnulífsins ekki að refsað sé fyrir brot á þeirra eigin kjarasamningi? Það væri hægt að semja um að setja þetta ákvæði inn í dag.“

Annað atriði sem Efling hefur farið fram á er styrking leiguverndar ef húsaleiga er hluti af ráðningarkjörum. „Á samningafundum í síðustu viku vorum við að hamra á þessu óeðlilega sambandi ráðningarsambands og húsnæðis við Samtök atvinnulífsins,“ segir Viðar. „Þetta er notað til að kúga fé út úr fólki og sem hótun um að fleygja því á götuna ef það sækir rétt sinn til stéttarfélagsins. Þessi fyrirtæki eru ekki alltaf meðlimir í SA, en SA hefur vald til að smíða kjarasamning sem gildir fyrir alla. SA hafa ekki brugðist við kröfu okkar síðan í október og á meðan halda fyrirtækin áfram að féfletta launafólk, dag eftir dag.“

„Við erum annars vegar að díla við glæpamenn,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. „Hver er ástæðan fyrir að atvinnurekendur með ónýtan siðferðisáttavita hafa þennan hóp í sigtinu? Það er því þau eru jaðarhópur í samfélaginu. Þau sjá hóp af fólki þarna sem þau upplifa ekki sem mennskan. En við höfum hér líka kerfisbundið vandamál. Í óheftu kapítalísku samfélagi dregst það versta fram í fólki. Okkar róttæka nálgun í verkalýðsmálum byggist á því að leita svara við því. Arðránið sjálft er vandamálið. Gróðinn er hafinn á efsta stall og starfsfólkið sem við erum að tala um hér er kramið undir.“

Viðar segir Eflingu hafa sett þrýsting á fyrirtækin. „Þessi fyrirtæki fara út í svona ótrúlega ósvífni meðal annars vegna þess Efling hefur staðið sig ágætlega í að sækja mál á hendur þeim. Efling knúði stóra starfsmannaleigu í gjaldþrot með metfjölda launakrafna – áttatíu launakröfur – í maí á síðasta ári. Núna koma sömu aðilar til baka eins og stökkbreyttur vírus undir nýjum kennitölum. Núna gera þau þetta nánast rétt á pappírnum, gefa kannski út réttan launaseðil, en hafa fundið nýjar leiðir til að féfletta fólkið framhjá lögum og reglum.“

Starfsmenn kjaramálasviðs Eflingar hafa fundað með verkamönnunum sem um ræðir og eru í óða önn að safna frá þeim upplýsingum til að geta gert launakröfur. Einnig hafa starfsmenn fylgt ASÍ á vettvang og fylgst með velferð og ástandi verkamannanna.

Spjótin standa á Samtökum atvinnulífsins enda ljóst að með hertum ákvæðum kjarasamnings mætti koma í veg fyrir misnoktun af því tagi sem starfsmannaleigur stunda. Til að tryggja velferð og öryggi verkafólks á Íslandi þarf að gera brot á kjarasamningum og óboðlegar vistarverur refsiverðar. Við getum sett það í kjarasamninginn í dag.