Vegna fréttaflutnings DV um mál Manna í Vinnu

17. 02, 2019

DV birti í gær umfjöllun um fólk sem starfaði hjá starfsmannaleigunni Menn í vinnu ehf. Þar er ýmislegt haft eftir eiganda starfsmannaleigunnar, Höllu Rut Bjarnadóttur. Efling tekur ásakanir um misnotkun fjármuna felagsins alvarlega. Efling hefur grannskoðað það sem fram kemur í fréttinni með túlki. Ekki er fótur fyrir þeim fullyrðingum sem koma fram í frétt DV, þar á meðal um ráðstöfun mataraðstoðar félagsins. Þetta hefði legið ljóst fyrir ef mennirnir hefðu fengið að njóta réttar síns til andsvars, eða ef hlutlaus túlkur hefði verið fenginn til að líta yfir gögnin sem fréttin byggir á. Myndband sem fylgir fréttinni rennir engan veginn stoðum undir fréttaflutninginn.

Nafngreindur maður er vændur um lygar og svik í frétt og fyrirsögn, auk þess sem upplýsingar af bankabók hans frá því í fyrra eru opinberaðar. Hann fékk ekki tækifæri til að svara fyrir þessar ásakanir á hendur sér. Við höfum rætt við hann og fengið að skoða frá honum gögn og bankafærslur. Frásögn hans kemur engan veginn heim og saman við fréttaflutning DV.

Efling hvetur fjölmiðla til að gæta hlutleysis og vandaðra vinnubragða við fréttaflutning.