Efling gagnrýnir fyrirhuguð verkfallsbrot hótelrekenda harðlega

Efling – stéttarfélag gagnrýnir harðlega þá hótelrekendur sem hafa í hyggju að stunda verkfallsbrot á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars þegar Efling hefur boðað verkfall meðal hótelþerna. Eflingu hafa borist fjölmargar tilkynningar um að hótelrekendur hyggist beita starfsfólk þrýstingi til að ýmist sniðganga verkfallsboðun eða ganga í störf starfsfólks í verkfalli. Hvort tveggja eru verkfallsbrot.

Margar tilkynninganna hafa borist í tengslum atkvæðagreiðslu utankjörfundar, en í tengslum við hana hefur starfsfólk Eflingar heimsótt fjölmarga vinnustaði á höfuðborgarsvæðinu í vikunni.

Valgerður Árnadóttir starfsmaður félagssviðs Eflingar hefur heyrt margar slíkar frásagnir í vikunni. „Áhyggjufullir hótelstarfsmenn hafa tjáð mér að það séu uppi áform um ýmis brot, svo sem að hindra starfsmenn í að fara í verkfall sem þrífa almenningsrými og sinna þvottum. Sumstaðar er verið að boða starfsmenn sem almennt vinna ekki við þrif til að mæta fyrr og sinna þeim með herbergisþernum, bæði til að ná að klára þrif fyrir kl 10:00 og einnig eftir að verkfall hefst.“

Formaður Eflingar sendi fyrir nokkrum dögum hótelrekendum á félagssvæðinu bréf þar sem réttur starfsfólks til þátttöku í verkfalli er áréttaður ásamt með skyldum atvinnurekenda. Þar er minnt á að verkfallsbrot eru brot á lögum nr. 80 frá 1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Efling – stéttarfélag kallar eftir því að atvinnurekendur virði lög og réttindi starfsfólks.