Kröfuganga og dagskrá í Gamla bíó 8. mars

Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars, munu starfsmenn sem vinna við þrif á hótelum og gistirýmum á félagssvæði Eflingar fara í verkfall.Verkfallið hefst kl 10:00 föstudaginn 8. mars og lýkur kl. 23:59 um kvöldið.

Starfsmenn leggja niður störf kl. 10:00 og eru beðnir að fara í Gamla bíó til að taka þátt í dagskrá og skrá sig fyrir greiðslu úr vinnudeilusjóði. Greiddar verða 12.000 krónur að frádregnum skatti og verður greiðslan afgreidd í lok mánaðar.

Í Gamla bíó verður dagskrá frá 10:00 til 18:30. Boðið verður upp á kaffi og léttar veitingar.

Kröfuganga kl. 16.00
Við hvetjum alla sem verkfallið tekur til og stuðningsmenn þeirra til að taka þátt í kröfugöngu framhjá helstu hótelum í miðbænum. Gengið verður frá Gamla bíó kl. 16:00 og endað þar aftur kl. 17:00 þegar dagskrá MFÍK hefst undir fundarstjórn Drífu Snædal, formanns ASÍ. Erindi halda Sanna Magdalena Mörtudóttir, Nichole Leigh Mosty, Magga Stína Blöndal og Arna Jakobína Björnsdóttir. Tónlistaratriði eru í höndum Spaðabana, Guðlaugar Fríðu og Kvennakórsins Impru.

Hér má sjá Facebook viðburð kröfugöngunnar og baráttufundarins

Ef þú forfallast vegna veikinda eða annars á verkfallsdegi má koma á skrifstofu Eflingar og sækja um greiðslu úr vinnudeilusjóði mánudag og þriðjudag, 11. og 12. mars á opnunartíma skrifstofunnar.

Verkfall hótelþerna nær til allra sem vinna við herbergisþrif, þrif á almennum rýmum og þvott á hótelum og gistiheimilum á félagssvæði Eflingar; Reykjavík, Kópavogur, Seltjarnarnes, Mosfellsbær, Hafnafjörður, Garðabær, Kjós, Grímsnes og Grafningarhreppur, Hveragerði og Sveitarfélagið Ölfus.

Gloria Steinem bandarískur femínisti, blaðakona og aktívisti mælti eitt sinn á alþjóðadegi kvenna “Sagan af baráttu kvenna fyrir jafnrétti tilheyrir ekki einum femínista eða samtökum heldur er þetta sameiginleg barátta allra þeirra sem láta sig mannréttindi varða.”