Verkfallsboðanir samþykktar með yfirgnæfandi meirihluta

10. 03, 2019

Talningu í atkvæðagreiðslu um verkföll hjá tilgreindum hópum félagsmanna í Eflingu lauk um hádegi í dag. Félagsmenn Eflingar samþykktu með yfirgnæfandi meirihluta greiddra atkvæða boðun verkfalla meðal starfsfólks á hótelum, í rútufyrirtækjum og hjá Almenningsvögnum Kynnisferða.

Af 1263 greiddum atkvæðum í öllum 7 atkvæðagreiðslunum voru 1127 sem samþykktu boðanir, 103 greiddu atkvæði gegn og 33 tóku ekki afstöðu. Um 92% þeirra sem afstöðu tóku samþykktu því verkfallsboðanirnar þegar allar atkvæðagreiðslurnar eru lagðar saman. Á kjörskrá voru samtals 1710 einstaklingar. Heildarkjörsókn nam um 35% og náði í öllum tilfellum 20% lágmarks þátttökuþröskuldi.

Formaður Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir, sagði niðurstöðuna ekki koma á óvart því hún hefði fundið fyrir miklum stuðningi við aðgerðir síðustu daga. „Við erum afar ánægð með þátttöku og framkvæmd atkvæðagreiðslunnar. Félagsmenn okkar eru á einu máli um að aðgerða sé þörf. Kröfur okkar eru sanngjarnar og félagsmenn eru tilbúnir að fylgja þeim eftir af krafti.“

Verkfallsboðanirnar eru nú samþykktar af félagsmönnum og verða afhentar SA og Ríkissáttasemjara.

Efling þakkar öllum félagsmönnum sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni sem og kjörstjórn Eflingar og starfsfólki sem vann hörðum höndum að framkvæmd atvæðagreiðslunnar.

Hér má sjá ítarleg kosningaúrslit brotin niður eftir ólíkum atkvæðagreiðslum.