Aðalfundur Eflingar – krefjandi og lærdómsríkt ár

30. 04, 2019

Aðalfundur Eflingar – stéttarfélags var haldinn í Austurbæ í gærkvöldi, 29. apríl. Fundurinn fór fram með hefðbundnu sniði og var mæting með ágætum.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar flutti skýrslu stjórnar þar sem hún fór yfir viðburðarríkt ár sem einkenndist öðru fremur af átökum á vinnumarkaði með hörðum samningaviðræðum og verkfallsaðgerðum. Sólveig Anna lýsti árinu sem bæði krefjandi og lærdómsríku þar sem unnið var markvisst að því að auka sýnileika félagsins og gefa því sterkari rödd í samfélaginu auk þess að efla þjónustu við félagsmenn og virkja þá til þátttöku í félagsstarfinu. Það hafi tekist með farsælum hætti og samstaða félagsmanna í þeirri vinnu sem átti sér stað hafi verið einkennandi.

Þá var lýst kjöri til stjórnar en endurnýjun er á um helmingi stjórnarmanna. Agniezka Ewa Piotrowska tekur við af Sigurrósu Kristinsdóttur sem varaformaður og Ólöf Helga Adólfsdóttir af Fanneyju Friðriksdóttur sem ritari. Úr stjórn gengu að auki Guðný Óskarsdóttir, Steinþór Ingi Þórsson, Jóhann Ingvar Harðarson og Hjördís Kristjánsdóttir. Nýir í stjórn eru Jóna Sveinsdóttir, Stefán E. Sigurðsson, Úlfar Snæbjörn Magnússon og Zsófía Sidlovits. Þorsteinn M. Kristjánsson situr áfram. Fráfarandi stjórnarmeðlimum var þakkað fyrir góð störf og þeir leystir út með blómvöndum.

Ársreikningur fyrir 2018 var kynntur og samþykktur samhljóða, sama er að segja um tillögu um breytingu á grein 11 c2 í sjúkrasjóðsreglugerð um hækkun dánarbóta, en þær hámarksupphæðir sem nú eru hafa verið bundnar í reglugerð í nánast tvo áratugi.

Undir dagskrárliðnum önnur mál var orðið gefið laust og báru félagsmenn fram spurningar um ýmis mál sem lúta að kjarasamningi og stuðningi við aldraða og öryrkja.

Fundi var síðan slitið og fundargestum boðið að njóta veitinga.

Fundarstjóri var Karl Ó. Karlsson, lögmaður Eflingar

Ávarp Sólveigar Önnu Jónsdóttur

Ársskýrsla Eflingar