Stjórn Eflingar ályktar um málefni tengd kjarasamningum

15. 04, 2019

Á stjórnarfundi Eflingar sem haldinn var 11. apríl sl. ræddi stjórn m.a. um málefni öryrkja og eldri borgara í tengslum við kjarasamninga og samþykkti eftirfarandi ályktun:

Stjórn Eflingar – stéttarfélags tekur undir með áhyggjum öryrkja og þeirra eldri borgara sem búa við alvarlegan og uppsafnaðan lífskjaravanda. Svonefndir lífskjarasamningar sem Efling er aðili að og meðfylgjandi yfirlýsing ríkisstjórnarinnar fela vissulega í sér kjarabót í formi skattalækkunar sem nýtist þessum hópi, en í vilyrðum ríkisstjórnarinnar er ekki að finna neinar áætlanir um frekari aðgerðir til að mæta vanda þessa hóps. Stjórn Eflingar kallar eftir því að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að afnema skerðingar og bregðast við öðrum réttmætum kröfum öryrkja og eldri borgara. Stjórn Eflingar ítrekar samstöðu með þessum hópum, sem telja marga núverandi og fyrrverandi félagsmenn Eflingar.

Ályktun stjórnar Eflingar um efndir á fyrirheitum stjórnvalda

Þá var á sama fundi samþykkt ályktun þar sem kallað er eftir því að stjórnvöld leggi fram tímasetta áætlun um framkvæmd einstakra atriða í yfirlýsingu þeirri sem gefin var út samhliða undirritun kjarasamninga:

Stjórn Eflingar – stéttarfélags fagnar yfirlýsingu stjórnvalda sem gefin var út samhliða undirritun kjarasamninga þann 3. apríl síðastliðinn. Stjórn Eflingar kallar eftir því að ríkisvaldið setji fram tímasetta áætlun um framkvæmd einstakra atriða úr yfirlýsingunni. Sérstaklega er áríðandi að lækkun skatta á lágtekjuhópa sé tímasett nákvæmlega og komi sem fyrst til framkvæmda, ekki síst í ljósi hófsamra launahækkana á fyrsta ári samningstímans.