Vegna umfjöllunar um styttingu vinnutíma og kaffitíma

Vegna framsetningar á inntaki kjarasamnings aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins við Samtök atvinnulífsins varðandi vinnutímabreytingar vill Efling – stéttarfélag koma eftirfarandi á framfæri:

  • Kjarasamningur SA við aðildarfélög SGS, svokallaður „Lífskjarasamningur“, felur ekki í sér neinar tryggingar fyrir styttingu vinnutímans hjá almennu verkafólki.
  • Samningurinn felur í sér heimild til vinnustaðabundinna viðræðna og framkvæmdar á raunstyttingu vinnutíma gegn því að launaðir kaffitímar verði einnig afnumdir að hluta eða í heild. Sú heimild er sambærileg eldri heimildum til afmarkaðra vinnutímabreytinga sem þegar voru til staðar í 5. kafla kjarasamnings við SA, svokölluðum „Fyrirtækjaþætti kjarasamninga“.
  • Nýi samningurinn felur ekki í sér að starfsfólk afsali sér réttinum til launaðra kaffitíma nema skilyrðum umrædds 5. kafla sé að öllu leyti fylgt, þar með talið um ítarlegt samráð við starfsfólk, atkvæðagreiðslu og aðkomu stéttarfélags.

Efling og samflotsfélög Eflingar stóðu staðfastlega gegn hugmyndum Samtaka atvinnulífsins um allsherjarbreytingar á skipulagi vinnutíma í þeim kjaraviðræðum sem nú er lokið, en þær breytingar hefðu leitt til hreinna kjaraskerðinga. Efling hafnaði alfarið tillögum um lengingu dagvinnutímabils, lengingu uppgjörstíma yfirvinnu og sölu kaffitíma á almennum grunni. Þessar tillögur SA náðu ekki fram að ganga.

Þær heimildir til styttingar vinnutímans sem nú koma inn í nýjum kjarasamningi eru aðeins lítilsháttar breytingar á skilyrtum heimildum sem þegar voru í kjarasamningi og munu ekki hafa áhrif á nema á einstaka vinnustöðum þar sem samkomulag um slíkt næst.