Efling fagnar tímamótayfirlýsingu ASÍ um eftirfylgni kjarasamninga

15. 05, 2019

Fyrir réttri viku sendi Efling viðvörun á hótelstjórann Árna Val Sólonsson vegna viðbragða hans við nýjum kjarasamningum. Hann sagði upp launakjörum allra starfsmanna sinna með bréfi og bauð þeim ný, hönnuð „með það að markmiði að lækka launakostnað“.

Þessu mótmælti Efling og benti á að þessi vinnubrögð hóteleigandans gengu gegn anda og markmiðum kjarasamninga auk þess sem alvarlegir formgallar voru á bréfum hans.

Nú hefur miðstjórn ASÍ ályktað um viðbrögð atvinnurekenda af þessum toga. Miðstjórnin „ASÍ skorar á alla viðkomandi atvinnurekendur að draga nú þegar til baka allar uppsagnir byggðar á framangreindum forsendum.“

Miðstjórn áskilur aðildarsamtökum ASÍ rétt „til þess að lýsa yfir einhliða riftun nýgerðra kjarasamninga við þessa sömu atvinnurekendur vegna þess ásetnings þeirra að ætla sér ekki að virða þá og hrinda í framkvæmd. Jafnframt er samtökunum áskilinn réttur til þess í kjölfarið að hefja aðgerðir til þess að knýja á um gerð nýs kjarasamnings við viðkomandi aðila og til þess að beita öllum tiltækum og lögmætum þvingunaraðgerðum til þess að knýja á um gerð þeirra, þar með talið með verkföllum.“

Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar fagnar ályktuninni. „Þetta er ekkert annað en tímamótayfirlýsing. Forysta ASÍ styður aðildarfélögin alla leið og ætlar ekki að láta bjóða sér að kjarasamningar séu virtir að vettugi. Við undirrituðum kjarasamning til að færa félagsmönnum raunverulega kjarabót, ekki til að leyfa atvinnurekendum undanbrögð og tilfærslur úr hægri vasanum í vinstri vasann.“

Viðar vekur athygli á því hversu ákveðin og harðorð yfirlýsing miðstjórnar er. „Það er mjög gott að finna að verkalýðshreyfingin stendur sameinuð. Það er hárrétt hjá ASÍ að friðarskyldan er ekki sjálfsagður hlutur. Gróf og vísvitandi kjarasamningsbrot aðildarfyrirtækja SA hljóta að setja hana í uppnám.“

Yfirlýsing miðstjórnar ASÍ:

Miðstjórn ASÍ harmar viðbrögð þeirra atvinnurekenda sem í kjölfar nýgerðra kjarasamninga hafa gripið til uppsagna á launakjörum starfsmanna sinna að sögn vegna þess kostnaðarauka sem til kemur vegna gildistöku þeirra.

Miðstjórn leggur áherslu á, að aðilar vinnumarkaðarins semja og gera kjarasamninga í góðri trú um að við undirritun þeirra verði af báðum aðilum unnið að staðfestingu þeirra og í framhaldinu að því að hrinda þeim í framkvæmd skv. efni sínu.

Þeir atvinnurekendur sem gripið hafa til uppsagna á ráðningarkjörum starfsmanna sinna nú í kjölfar undirritunar og samþykkis kjarasamninga ganga gegn markmiðum samninganna og lýsa því beinlínis yfir að þeir hyggist ekki efna þá.

Miðstjórn ASÍ skorar á alla viðkomandi atvinnurekendur að draga nú þegar til baka allar uppsagnir byggðar á framangreindum forsendum. Jafnframt áskilur ASÍ öllum aðildarsamtökum sínum rétt til þess að lýsa yfir einhliða riftun nýgerðra kjarasamninga við þessa sömu atvinnurekendur vegna þess ásetnings þeirra að ætla sér ekki að virða þá og hrinda í framkvæmd. Jafnframt er samtökunum áskilinn réttur til þess í kjölfarið að hefja aðgerðir til þess að knýja á um gerð nýs kjarasamnings við viðkomandi aðila og til þess að beita öllum tiltækum og lögmætum þvingunaraðgerðum til þess að knýja á um gerð þeirra, þar með talið með verkföllum.