Efling styður fulltrúaráð VR

Stjórn Eflingar – stéttarfélags lýsir yfir stuðningi við þá ákvörðun fulltrúaráðs Lífeyrissjóðs verslunarmanna að afturkalla umboð stjórnarmanna í kjölfar þess að stjórn sjóðsins hækkaði vexti með geðþóttaákvörðun þvert á almennar vaxtalækkanir og yfirlýst markmið nýundirritaðra kjarasamninga.

Stjórn Eflingar tekur undir það sjónarmið að fjármálastofnanir endurspegli með eðlilegum hætti stýrivaxtalækkanir í síðustu tveimur vaxtaákvörðunum Seðlabankans og lækkun markaðsvaxta á skuldabréfamarkaði. Fjármálastofnunum ber að sjálfsögðu að nýta það svigrúm þannig að það skili sér til neytenda, en fóðri ekki aðeins gróða fjármálastofnana. Úttekt IFS Greiningar unnin fyrir VR hefur varpað ljósi á óeðlileg, óútskýrð og sívaxandi álög í álögum fjármálastofnana í útlánum þeirra síðustu ár.

Stjórn Eflingar minnir á að lífeyrissjóðirnir eru afurð samkomulags milli aðila vinnumarkaðarins. Samkvæmt lögum og samþykktum þeirra á launafólk sem greiðir í sjóðina rétt á aðkomu að stjórn þeirra m.a. í gegnum fulltrúaráð. Sú aðkoma er með öllu merkingarlaus ef fulltrúaráðum er gert óheimilt að bregðast við í tilfellum þar sem stjórnir sjóðanna ganga þvert á markmið verkalýðshreyfingarinnar og almennt viðskiptasiðferði.

Stjórn Eflingar lýsir yfir samstöðu með formanni og forystu VR, stærsta stéttarfélagi landsins, gegn þeirri hrinu ásakana sem nú dynur á félaginu með fulltingi Fjármálaeftirlitsins, samtaka atvinnurekenda og dagblaða. Þessi viðbrögð sýna óttann sem kviknar hjá varðmönnum kerfisins þegar launafólk sýnir kraftinn sem býr í öflugum samtökum þeirra.

Stjórn Eflingar, 4. júlí 2019.