- Eldum rétt nýtti sér þjónustu starfsmannaleigu eftir að hún var afhjúpuð í þættinum Kveik
- Framkvæmdastjóri fyrirtækisins þverneitar ábyrgð og kennir öðrum um, þar á meðal Vinnumálastofnun
- Sáttatilboði upp á 4 milljónir hafnað þrátt fyrir ofurhagnað Eldum rétt
Fyrirtækið Eldum rétt ehf hefur í annað sinn hafnað sáttum og neitað að gangast við lögbundinni ábyrgð sinni sem notendafyrirtæki, svokallaðri keðjuábyrgð, í máli fjögurra starfsmanna sem fyrirtækið leigði frá starfsmannaleigunni Mönnum í vinnu í vetur. Mennirnir voru látnir sæta þvingun, vanvirðandi meðferð og broti ýmissa kjarasamningsbundinna réttinda. Mikið hefur verið fjallað um aðbúnað umræddra starfsmanna og annarra í sömu stöðu síðasta árið.
Krafa á hendur Eldum rétt með vísun í lög um keðjuábyrgð var unnin af lögmannstofunni Rétti fyrir atbeina Eflingar og birt fyrirtækinu þann 17. apríl síðastliðinn. Fjögur notendafyrirtæki fengu slíka kröfu. Þrjú þeirra féllust á hana án andmæla en aðeins Eldum rétt hafnaði. Í kjölfarið var Eldum rétt birt stefna og fjallað um málið í fjölmiðlum. Kröfur og stefnan byggja á ítarlegri gagnaöflun kjaramálasviðs Eflingar og Réttar, með umboði og þátttöku starfsmannanna.
Lögmaður Eldum rétt og framkvæmdastjóri fyrirtækisins, Kristófer Júlíus Leifsson, komu að eigin ósk til fundar við Eflingu í gær, 5. júlí. Formaður og framkvæmdastjóri Eflingar auk lögmanns frá Rétti komu á fundinn tilbúin til viðræðna og lögðu fram sáttatilboð. Eldum rétt lagði hvorki fram ný gögn né sjónarmið á fundinum. Þess í stað véku fulltrúar fyrirtækisins sér enn á ný undan ábyrgð sem það ber samkvæmt lögum. Á níunda tímanum hafnaði Kristófer sáttatilboði Eflingar skriflega.
Afstaða fyrirtækisins er Eflingu vonbrigði, en hún er sama marki brennt og ummæli Kristófers Júlíusar í fjölmiðlum, þar sem höfð eru mörg orð um ábyrgð annarra en eigin ábyrgð hafnað.
„Nú er stór samfélagsleg umræða í gangi um meðferð á erlendu verkafólki og ábyrgð þeirra sem nýta sér hana. Það eru mjög mikil vonbrigði að Eldum rétt taki þennan pól í hæðina,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. „Við höfum ný lög sem eiga að bæta þá takmörkuðu vernd sem innflutt vinnuafl nýtur, lög um keðjuábyrgð, en Eldum rétt notar þetta fyrsta tækifæri til að sverja þá ábyrgð af sér.“
Kristófer Júlíus hefur lýst því yfir að það hafi verið „hræðileg ákvörðun“ að skipta við Menn í vinnu, en hefur einnig, í viðtölum og í gegnum lögmenn sína, kennt verkamönnunum sjálfum, stéttarfélagi þeirra og Vinnumálastofnun um hvernig fór. Vinnumálastofnun hefur mótmælt orðum Kristófers. Kristófer leitaði sjálfviljugur eftir viðskiptum við Menn í vinnu eftir alræmda umfjöllun um fyrirtækið í fréttaskýringaþættinum Kveik á RÚV í október.
„Það er með ólíkindum að Kristófer segi út um annað munnvikið hversu leiðinlegt honum þyki þetta og að hann ætli að axla ábyrgð, en út um hitt að sú ábyrgð sé nákvæmlega engin,“ segir Sólveig Anna. „Hann hefur haft frá miðjum apríl til að gera hreint fyrir sínum dyrum, en hefur ekki gefið okkur nein gögn sem útskýra hvers vegna hann ætti að vera undanskilinn ábyrgð.“
Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar segir það athyglisvert hversu mikill ásetningur virðist búa að baki viðbrögðum Eldum rétt. „Það blasir við að Eldum rétt tekur mjög einarða afstöðu með rétti atvinnurekenda til að misnota og svíkja starfsfólk, og tekur virkan þátt í þeim leik að hver aðilinn bendi á hinn. Allar smugur eru nýttar til að skjóta sér undan ábyrgð,“ segir Viðar.
„Það virðist auk þess standa mjög í fyrirtækinu að það geti kostað eitthvað að mæta afleiðingum gjörða sinna og rétta hlut mannanna sem það misnotaði,“ segir Viðar, en hagnaður fyrirtækisins árin 2017 og 2016 var samanlagt tæpar 160 milljónir. Sáttatilboð Eflingar hefði í heild kostað fyrirtækið rúmar 4 milljónir.