Eldum rétt og Mönnum í vinnu stefnt til greiðslu bóta vegna nauðungarvinnu

Eldum rétt og Mönnum í vinnu, ásamt forsvarsmönnum fyrirtækjanna, hefur verið stefnt fyrir meðferð þeirra á fjórum rúmenskum verkamönnum sem unnu hjá þeim í vetur. Eldum rétt keypti vinnuafl hjá starfsmannaleigunni Menn í vinnu í janúar, og bar með því ábyrgð á að kjör verkamannanna væru sómasamleg samkvæmt lögum um keðjuábyrgð frá árinu 2018.

Nokkur fyrirtæki keyptu vinnuafl frá Mönnum í vinnu. Lögmannsstofan Réttur hefur að beiðni Eflingar farið fram á að þau ábyrgist kaup og kjör starfsmanna sem Menn í vinnu höfðu brotið á, á meðan þeir gegndu störfum fyrir umrædd fyrirtæki. Öll fyrirtækin gengust við því nema Eldum rétt.

Lögsókn gegn fyrirtækinu og framkvæmdastjóra þess, ásamt Mönnum í vinnu og forsvarsmönnum starfsmannaleigunnar, hefur nú verið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Hvað var gert við Rúmenana?
Eftir gylliboð um atvinnu á Íslandi komu mennirnir frá Rúmeníu á vegum Menn í vinnu ehf, sem ekki aðeins leigði þá út heldur voru þeir jafnframt upp á fyrirtækið komnir með aðgang að húsaskjóli. Launin þeirra voru skert með einhliða frádrætti merktum húsnæði, flugmiða, aðgang að bíl, líkamsrækt og aðra hluti. Þetta gaf skuggastjórnanda fyrirtækisins, Höllu Rut Bjarnadóttur, ofsalegt vald yfir tilveru verkamannanna, vald sem virðist hafa verið óspart notað sem ögunartæki gagnvart þeim.

Í október fjallaði Kveikur um skelfilega aðstöðu starfsmanna hjá leigunni, þar sem þessari ögun var lýst. Þessi umfjöllun vakti mikla athygli í íslensku samfélagi og það mátti vera öllum ljóst að fyrirtækið væri ekki í stakk búið til að stunda heilbrigða viðskiptahætti. Þetta var staðfest þegar starfsmenn þess létu vita af meðferðinni á sér í febrúar síðastliðnum. Þeir leituðu til  ASÍ og lýstu að þeim hefði verið hótað uppsögn, brottrekstri úr húsnæðinu sem þeir dvöldu í og líkamsmeiðingum ef þeir töluðu við fjölmiðla eða stéttarfélög. Í einni af heimsóknum fulltrúa ASÍ og Eflingar bárust einum verkamannanna skilaboð á Messenger. Halla Rut var að spyrja hann: Viltu flugmiða heim?

Í heimsókninni kom líka í ljós að húsnæðið sem mönnunum hafði verið staflað í var iðnaðarhúsnæði og ekki útbúið sem mannabústaður. Voru tugþúsundir króna innheimtar á hvern einstakling fyrir að búa ásamt mörgum öðrum í herbergi. Lögheimilið þeirra hafði í þokkabót verið ranglega skráð. Síðasta útborgun þeirra var í sumum tilvikum nærri núlli, vegna alls kyns frádráttar.

Þegar rúmensku verkamennirnir létu fjölmiðla vita af óboðlegum og ömurlegum aðstæðum byrjaði Halla Rut að senda persónuleg gögn frá þeim til blaðamanna, til dæmis skjáskot af bankareikningi eins starfsmannsins, til að villa um fyrir og gera lítið úr málflutningi þeirra.

Mönnunum var í stuttu máli boðið til vinnu hér á fölskum forsendum, þeir voru hafðir að féþúfu Höllu Rutar og stjórnenda Menn í vinnu ehf þar til þeir urðu til óþæginda. Þá var öllum ráðum beitt til að gera þeim lífið hér óbærilegt og helst hrekja þá úr landi. Þeir voru skildir eftir matar-, peninga- og húsnæðislausir þar til Efling og félagsþjónustur Kópavogs og Reykjavíkur sáu þeim fyrir skjóli og fæði.

Hver er ábyrgð Eldum rétt?
Því fylgir augljós áhætta að flytja inn vinnuafl í gegnum starfsmannaleigur. Slík fyrirtæki geta verið skálkaskjól undirborgana, misneytingar og jafnvel mansals. Af þeim sökum var leidd í lög „keðjuábyrgð“, svo fyrirtæki gætu ekki firrt sig ábyrgð á aðbúnaði starfsfólks síns með því að hafa það formlega í vinnu hjá öðrum. Eldum rétt bar samkvæmt lögunum, líkt og önnur fyrirtæki sem keyptu vinnuafl hjá Menn í vinnu ehf, ábyrgð á að starfsmennirnir hefðu það skikkanlegt – og ekki verr en annað starfsfólk.

Öll fyrirtæki sem Efling – stéttarfélag hefur nálgast vegna máls Menn í vinnu ehf hafa sagt að þau muni virða þessa ábyrgð. Eldum rétt hefur eitt fyrirtækja hafnað þessari kröfu.

Um hvað snýst dómsmálið?
Annars vegar snýst það um ólöglegan launafrádrátt; alla þá fjölbreyttu mínusa sem settir voru á launaseðlana. Einn af þeim var til dæmis fyrir World Class korti (sem margir starfsmenn könnuðust ekkert við að hafa notað). Þeim var sagt að kortið fengju þeir á sérstökum afslætti, en frádrátturinn á launaseðlinum var hærri en áskriftargjaldið á verðlista World Class.

Hins vegar snýst það um veigameira atriði, sem er sú vanvirðandi meðferð og þvingunar- eða nauðungarvinna sem verkamennirnir sættu. Í ljósi þeirra aðstæðna sem þeir bjuggu við, og þess valds sem stjórnendur Menn í vinnu ehf höfðu yfir þeim, voru þeir „háðir boðvaldi og [settir] undir yfirburðarstöðu“ fyrirtækisins, líkt og segir í stefnunni. Þessi staða blasir við í hvert skipti sem íslensk fyrirtæki sækja sér fólk erlendis frá án þess að upplýsa þau um réttindi sín – en það er ekki á hverjum degi sem þessi yfirburðastaða er nýtt af sambærilegri grimmd.

Hvers vegna eru starfsmannaleigur leyfðar?
Verkalýðshreyfingin álítur starfsmannaleigur vera einstaklega óæskilegar. Þær fela í sér frávik frá þeirri meginreglu að starfsmaður sé í beinu ráðningarsambandi við atvinnurekanda, og setja á milli þeirra þriðja aðila sem tekur skerf af laununum í sinn vasa. Því miður hefur þetta fyrirkomulag verið leyft í íslenskum og evrópskum lögum til að auðvelda atvinnurekendum að sækja sér vinnuafl út fyrir landsteinana þegar enginn samþykkir boð þeirra á Íslandi.

Þetta hefur opnað á enn eina leið til að grafa undan kaupi og kjörum á íslenskum vinnumarkaði. Fólk er gagngert sótt frá fátækum svæðum sem alþjóðavæðingin hefur leikið grátt, og þar sem enskukunnátta er mjög takmörkuð. Engar kröfur eru gerðar á fyrirtæki að kynna starfsfólki réttindi sín.

Hvað gerist næst?
Málið verður leitt til lykta fyrir dómstólum. Framkvæmdastjóri Eldum rétt hefur sagt í viðtali við Stundina að hann sé mjög hissa að Menn í vinnu ehf hafi brotið af sér í febrúar, eftir að hafa brotið af sér í október. Samkvæmt bréfi frá lögfræðingum hans er öllum kröfum um ábyrgð hafnað.