Tvö notendafyrirtæki gangast í ábyrgð vegna starfsmanna Menn í vinnu

21. 09, 2019

Tvö fyrirtæki af fjórum sem félagsmenn Eflingar störfuðu hjá í gegnum starfsmannaleiguna Menn í vinnu hafa náð sáttum við lögmenn starfsmannanna. Hafa fyrirtækin tvö fallist á að greiða þau laun sem Menn í vinnu héldu eftir, þar á meðal frádráttarliði. Er þetta gert með vísun í keðjuábyrgð, sem gerir kaupanda vinnuafls frá starfsmannaleigum ábyrgan fyrir því að kaup og kjör skili sér alla leið til starfsfólksins. Lögmannsstofan Réttur hefur farið með málin að beiðni Eflingar fyrir hönd félagsmannanna frá því í vor.Mál félagsmannanna, sem störfuðu hjá starfsmannaleigunni Menn í vinnu, kom upp í febrúarbyrjun á þessu ári. Starfsmenn höfðu kvartað undan ógreiddum launum og átti að henda þeim úr iðnaðarhúsnæðinu sem Menn í vinnu létu þá búa í. Sýndi málið svart á hvítu hvílíkt ógnarvald atvinnurekendur geta haft yfir starfsmönnum sem fluttir eru inn erlendis frá til tímabundinnar dvalar. Þegar launaseðlar starfsfólksins voru skoðaðir mátti sjá fjölda frádráttarliða fyrir hluti sem ekki getur talist eðlilegt að atvinnurekandi hlutist til um.Efling tók upp mál þeirra og lét lögfræðistofuna Rétt vinna úr launa- og miskabótakröfur eftir því sem tilefni var til. Var sú krafa gerð á notendafyrirtækin, þar sem mennirnir höfðu unnið, að þau stæðu við keðjuábyrgð gagnvart sínu starfsfólki. Fyrirtækin voru fjögur talsins. Tvö hafa nú komist að samkomulagi við félagsmennina um greiðslu.“Það er mjög ánægjulegt að sjá fyrirtæki viðurkenna keðjuábyrgð í verki og sýna vilja til að rétta hlut félagsmanna okkar án þess að þurfi að fara með málin fyrir dóm,“ segir Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar.