Ég læt ekki svindla á mér – fræðsla til ungs fólks á vinnumarkaði

16. 10, 2019

Efling-stéttarfélag hrinti af stað átakinu „Ég læt ekki svindla á mér – segjum NEI við launaþjófnaði“ með heimsókn í Tækniskólann í gær, þriðjudag. Átakinu er ætlað upplýsa og fræða ungt fólk um réttindi þess á vinnumarkaði og stemma stigu við launaþjófnaði.Nemendur Tækniskólans tóku vel á móti fulltrúum Eflingar. Margir nemendur eru í vinnu með skóla og nýttu tækifærið til að spyrja um einstök atriði er tengjast vinnu þeirra. Algengustu vangaveltur nemendanna vörðuðu réttindi til orlofs, lágmarkslaun og yfirvinnu og margir þeirra báru launaseðla sína undir starfsmenn Eflingar til að ganga úr skugga um að þeir væru í lagi. Flestir kvörtuðu yfir skorti á upplýsingum um réttindi ungs fólks á vinnumarkaði og kölluðu eftir meiri fræðslu um þessi mál strax í grunnskóla.Nýleg rannsókn ASÍ bendir til þess að brotastarfsemi hafi aukist á íslenskum vinnumarkaði. Stéttarfélög fá inn á borð til sín fleiri og alvarlegri mál en áður tengd launaþjófnaði og kjarasamningsbrotum og margt bendir til þess að sumir atvinnurekendur reyni kerfisbundið að komast undan samningsbundnum réttindum og því að virða lágmarkskjör starfsmanna. Brotin virðast einkum beinast gegn hópum sem síður þekkja réttindi sín eða eru í veikri stöðu til að sækja rétt sinn.Launakröfur vegna launaþjófnaðar og kjarasamningsbrota hlaupa á hundruðum milljóna króna ár hvert meðal aðildarfélaga Alþýðusambandsins. Brotastarfsemin beinist að stórum hluta gegn yngra launafólki með lágar tekjur, í óreglulegu ráðningarsambandi eða hlutastörfum.Ungt fólk á vinnumarkaði er af ýmsum ástæðum í viðkvæmari stöðu en eldra fólk. Þessi hópur býr að takmarkaðri reynslu, stoppar oft stutt við á vinnustöðum, er ekki upplýst um réttindi sín og veit jafnvel ekki að hægt er að sækja aðstoð til stéttarfélagsins.Fjögur aðildarfélaga ASÍ gerðu 768 launakröfur á síðasta ári upp á samtals 450 milljónir króna. Af þeim var launaþjófnaður gagnvart fólki á aldrinum 25 ára og yngri að minnsta kosti 53.000.000 kr.Hafa ber í huga að einungis eru gerðar kröfur í hluta af þeim málum sem stéttarfélögum berst, þar sem oft skortir nauðsynleg gögn til að reka slík mál. Þar að auki er sennilegt að langstærstur hluti brota gagnvart ungu fólki rati aldrei inn á borð stéttarfélaganna. Það bendir því flest til þess að hér sé einungis um toppinn á ísjakanum að ræða.Fulltrúar Eflingar hafa haft samband við alla framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu og boðið upp á heimsókn í viðkomandi skóla í því skyni að fræða nemendur um réttindi þeirra. Fleiri skólar verða heimsóttir á komandi dögum og eru þeir skólar sem ekki hafa bókað heimsókn hvattir til að setja sig í samband við stéttarfélagið, efling@efling.isUpplýsingar um réttindi ungs fólks og hvað helst ber að varast eru aðgengilegar á heimasíðu Eflingar. Þá stendur yfir söfnun reynslusagna til að sýna hvernig brotum ungt fólk verður fyrir í starfi. Þær verða birtar á vef Eflingar og facebooksíðu.