Samtal við Eflingu afþakkað

31. 01, 2020

Aðeins Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, hefur þegið boð Eflingar til oddvita borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík um þátttöku í kynningar- og samtalsfundi með trúnaðarmönnum Eflingar á mánudag kl. 13. Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi vinstri grænna, sendi Eflingu skilaboð um að hún sæi sér ekki fært á mæta á umræddum tíma. Hins vegar væru hún og Elín Oddný Sigurðardóttir, varafulltrúi Vinstri grænna, tilbúnar til að finna annan tíma til að kynna sér sjónarmið Eflingar. Hvorki Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, né Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, hafa svarað erindi Eflingar.Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, bauð fulltrúunum til formlegs fundar með fulltrúum starfsfólks með tölvupóst á fimmtudag. Markmið fundarins var að kynna fyrir oddvitunum tillögur Eflingar til leiðréttingar á kjörum félagsmanna ásamt því að eiga við þá samtal. Í erindinu var sérstaklega óskað eftir því að svarað yrði eigi síðar en um hádegi á föstudag. Aðeins höfðu tveir af fjórum borgarfulltrúanna svarað þegar fresturinn rann út. Hvorki hafði borist svar frá Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra né, Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur.Því miður er þetta ekki í fyrsta skipti sem æðstu stjórnendur Reykjavíkurborgar virða ekki starfsmenn sína viðlits í yfirstandandi kjaraviðræðum sem hlýtur enn og aftur að teljast gríðarleg vonbrigði fyrir þennan lægst launaða hóp borgarstarfsmanna.