Kosning um verkföll hjá sjálfstætt starfandi skólum og nágrannasveitarfélögum eftir helgi

21. 02, 2020

Félagsmenn Eflingar – stéttarfélags sem starfa hjá einkareknum skólum og hjá sveitarfélögum öðrum en Reykjavíkurborg munu greiða atkvæði í næstu viku um verkföll. Í tillögunum er gert ráð fyrir að verkföll verði ótímabundin og hefjist mánudaginn 9. mars næstkomandi. Verkföllin munu taka til á fimmta hundrað manns.Rúmlega 270 félagsmenn Eflingar starfa undir samningi félagsins við Samband íslenskra sveitarfélaga. Samningurinn, sem rann út 31. mars 2019, er óháður Reykjavíkurborg og undir sjálfstæðu viðræðuferli. Undir samningnum eru störf ófaglærðra við umönnun, gatnaviðhald og fleira, mestmegnis hjá Kópavogs- og Seltjarnarnesbæ. Samninganefnd félagsmanna Eflingar gagnvart Sambandi íslenskra sveitarfélaga lýsti viðræður hjá Ríkissáttasemjara árangurslausar á samningafundi í dag og samþykkti í kjölfar þess að bera tillögu um boðun vinnustöðvunar undir atkvæði félagsmanna. Félagsfundur félagsmanna Eflingar hjá sveitarfélögunum í síðustu viku hafði þegar lýst stuðningi við verkfallsboðun.Rúmlega 240 félagsmenn Eflingar starfa hjá einkareknum skólum sem eiga aðild að Samtökum sjálfstæðra skóla (SSSK). Um er að ræða samúðarverkfall með verkfalli Eflingarfélaga hjá Reykjavíkurborg. Tillaga um verkfallsboðun er lögð fram að höfðu samráði við trúnaðarmenn á einkareknu skólunum, sem lýstu eindregnum stuðningi við tillöguna á fundi í gærkvöldi 20. febrúar.Verkfallsatkvæðagreiðslurnar hefjast á hádegi á næstkomandi þriðjudag og munu standa til hádegis á laugardaginn 29. febrúar. Þær verða rafrænar en hægt verður að greiða atkvæði á pappír á skrifstofum Eflingar. Nánari tilhögun verður auglýst strax eftir helgi.„Eflingarfélagar sem vinna á sambærilegum kjörum og borgarstarfsmenn hafa lýst eindreginni samstöðu og stuðningi við aðgerðir okkar í borginni. Þeir hafa margir haft samband á síðustu vikum og lýst yfir vilja til að taka þátt í aðgerðum,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. „Fundir okkar með þessum hópum sýna að þar eru nákvæmlega sömu vandamál á ferðinni og hjá Reykjavíkurborg: undirmönnun, ofurálag, lítilsvirðing og vanmat störfum fólks. Sem auðvitað tengist því að þetta eru að stórum hluta kvennastéttir. Við munum að sjálfsögðu fara fram á sams konar leiðréttingu fyrir þennan hóp eins og hjá borginni.“