Efling fagnar góðum árangri í nýjum kjarasamningi við ríkið

Efling – stéttarfélag hefur undirritað kjarasamning við ríkið. Samningurinn felur í sér taxtahækkanir að fyrirmynd Lífskjarasamningsins og styttingu vinnuvikunnar. Jafnframt fylgja honum viðbótaraðgerðir sem munu styrkja hugmyndafræðina um sérstakar hækkanir láglaunafólks og koma til móts við kröfuna um leiðréttingu á kjörum kvennastétta. Gildistími samningsins er langur eða til 31. mars 2023.Samningurinn tekur til verkafólks mestmegnis á Landspítalanum en einnig í öðrum stofnunum ríkisins á félagssvæði Eflingar. Um er að ræða störf við umönnun, þrif, þvotta, í mötuneytum og fleira. Undir samningnum starfa um 540 félagsmenn, þar af um 80% konur.Samkvæmt samningnum kemur fjárveiting til innröðunar starfsfólks í nýja launatöflu í ársbyrjun 2021. Þetta mun leiða til dýrmætrar leiðréttingar á kjörum starfsfólks.Samninganefnd ríkisins ásamt samninganefnd Eflingar gagnvart ríkinu undir formennsku Sólveigar Önnu Jónsdóttir undirritaði samninginn í húsakynnum Ríkissáttasemjara síðdegis í dag.„Viðræður okkar við ríkið hafa gengið vel nú á lokametrunum og sýna skýrt hverju er hægt að áorka þegar fólk eru lausnamiðað og hlustar hvert á annað,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar. „Ég mun mæla með þessum samningi við mína félagsmenn enda eru í honum mikilvæg skref í átt að því sem Efling hefur sóst eftir í viðræðum við ríki og sveitarfélög. Ég er bjartsýn á hann verði samþykktur af félagsmönnum okkar á Landspítalanum og öðrum ríkisstofnunum.“

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og Ragnar Ólason sérfræðingur hjá Eflingu við undirritun samnings.
Félagið mun kynna samninginn og boða til atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna eins fljótt og auðið er.