Öflug samstaða í kjarabaráttu Eflingarfélaga gagnvart SÍS

23. 03, 2020

Hvatning til bæjarstjóra Kópavogsbæjar og Seltjarnarnesbæjar um að þeir sýni starfsmönnum sínum í Eflingu sömu virðingu og starfsmennirnir sjálfir sýni verkefnum sínum með því að ganga til samninga við Eflingu er rauði þráðurinn í fjölmörgum yfirlýsingum starfsmanna sveitarfélaganna tveggja til bæjarstjóranna.Sextíu trúnaðarmenn í Reykjavíkurborg lýsa sig reiðubúna til að leggja sín lóð á vogarskálarnar í baráttu starfsmannanna og félaga þeirra í Mosfellsbæ, Hveragerði og Ölfusi gagnvart Sambandi íslenskra sveitarfélaga (SÍS). Samningar Eflingar fyrir hönd þessa hóps hafa verið lausir í ár. Verkfall hefur staðið í  ríflega tvær vikur og enginn samningafundur verið boðaður.Í yfirlýsingu heimaþjónustustarfsmanna í Eflingu í Kópavogi til Ármanns Kr. Ólafssonar bæjarstjóra segir að Eflingu hafi tekist að tryggja skref í átt að leiðréttingu lægstu launa í samningum við Reykjavíkurborg og ríki. Starfsmennirnir segjast ekki skilja hvers vegna bærinn vilji ekki semja við Eflingu á sömu nótum. „Erum við ekki þess virði?,” spyrja þeir.Skólaliðar í nokkrum grunnskólum í Kópavogsbæ taka í sama streng. Þeir minna bæjarstjórann á að þeir vinni sömu störf, innan sama stéttarfélags og á sama atvinnusvæði og félagar þeirra hjá Reykjavíkurborg. Engu að síður neiti bæjarstjórinn að veita þeim sömu kjarabætur og samið hafi verið um við Reykjavíkurborg. Ítrekað er að á sama tíma og farið sé fram á undanþágu vegna þrifa í skólum virðist hverfandi vilji til samninga.Starfsmenn í umönnunarstörfum fyrir Seltjarnarnesbæ minna á aukið vægi starfa þeirra í glímunni gegn Covid-19. „Við sýnum fagmennsku í okkar vinnu. Við hlúum vel að skjólstæðingum okkar og sýnum þeim virðingu. Vinnan okkar er erfið og krefjandi en samt viljum við vera í henni. Við höfum metnað fyrir verkefnunum sem samfélagið treystir okkur fyrir, ” segir í yfirlýsingu starfsmannanna sem hvetja Seltjarnarnesbæ til að sýna þeim sömu virðingu og þeir sjálfir sýni verkefnum sínum fyrir Seltjarnarnesbæ.Sextíu trúnaðarmenn Eflingar hjá Reykjavíkurborg lýsa yfir eindregnum stuðningi við félaga sína hjá hinum sveitarfélögunum. „Það er mikill misskilningur ef sveitarfélögin halda að þau geti svikið láglaunafólk um kjarabætur jafnvel þótt kastljós fjölmiðla sé á öðrum atburðum. Um það verður aldrei sátt og við það verður aldrei unað,“ segir í yfirlýsingunni.Trúnaðarmennirnir lýsa sig tilbúna að leggja sín lóð á vogarskálar „með fjöldann og samstöðuna að vopni, til að tryggja ásættanlega niðurstöðu fyrir félaga okkar.“Hér er hægt að skrifa undir áskorun til sveitarfélaganna að semja við Eflingu.