Réttur til launa vegna COVID-19

18. 03, 2020

Smit launamanns eða barns

 • Launamaður sem veikist af völdum COVID-19 nýtir veikindarétt sinn hjá atvinnurekanda og að honum tæmdum skapast réttur í sjúkrasjóðum stéttarfélaganna.
 • Ef barn launamanns veikist af völdum COVID-19, þá nýtir launamaður veikindarétt vegna barna hjá atvinnurekanda og að honum tæmdum skapast réttur í sjúkrasjóðum stéttarfélaganna.

Sóttkví launamanns samkvæmt fyrirmælum yfirvalda

Eftirfarandi byggir á lagafrumvarpi sem til meðferðar er á Alþingi (17.3 2020)

 • Atvinnurekandi greiðir laun til launamanna í sóttkví og samkvæmt nýju lagafrumvarpi fyrir Alþingi getur hann sótt um aðstoð stjórnvalda til að standa straum af þessum launagreiðslum. Tímabil aðstoðarinnar miðast við sóttkví frá 1. febrúar 2020 til og með 30.apríl 2020.
 • Nýju lögunum er líka ætlað að tryggja greiðslur til launamanna sem sæta sóttkví á sama tímabili en fá ekki greidd laun frá atvinnurekanda í þeim tilvikum sem að ofan greinir.
 • Sóttkví samkvæmt framansögðu gengur ekki á veikindarétt launamanns.
 • Ef atvinnurekandi útvegar launamanni þær tengingar og tæki sem þarf til að sinna vinnu heiman frá sér, þá skal launamaður verða við því eftir megni. Greiðsla launa verður þá í samræmi við starfshlutfall sem unnið er að heiman.

Sóttkví barns launamanns samkvæmt fyrirmælum yfirvalda

 • Eins og stendur eiga foreldrar rétt til fjarvista án launa við þessar aðstæður. Einnig geta foreldrar nýtt ótekið orlof. Unnið er að því í samstarfi við stjórnvöld að útfæra þetta þannig að launamaður verði ekki fyrir tekjumissi af þessum völdum.

Sóttkví launamanns að frumkvæði atvinnurekanda

 • Ákvörðun um sóttkví er tekin á grundvelli sóttvarnarlaga af viðeigandi yfirvöldum. Óski atvinnurekandi eftir því að launamaður mæti ekki til starfa þó hann hafi ekki fengið fyrirmæli um að vera í sóttkví skal hann greiða launamanni full laun meðan á fjarvist stendur.

Lokun vinnustaðar

 • Ef atvinnurekandi ákveður að loka vinnustað tímabundið vegna aðstæðna í samfélaginu falla launagreiðslur ekki niður.

Sóttkví að frumkvæði launamanns

 • Fólk sem sjálft ákveður að fara í sóttkví, gerir það á eigin áhættu og kostað. Þeim sem eru í þessum hugleiðingum er ráðlagt að hafa samband við launagreiðanda og tryggja að fjarvist verði tekin af þessum ástæðum sem leyfi en ekki riftun á ráðningarsamningi.
 • Ef fólk þjáist af kvíða vegna ástandsins og treystir sér ekki til vinnu og kýs að vera frekar í sóttkví, þá er bent á að kvíði getur fallið undir veikindahugtak kjarasamninga og þar með rétt til launa í veikindum. Læknisfræðilegt mat þarf þá að liggja fyrir, þ.e. vottorð.
 • Athygli stjórnvalda hefur verið vakin á því að hafa þau tilvik inni í nýju væntanlegum lögum þar sem launamaður með undirliggjandi alvarlegan sjúkdóm fer sjálfur í sóttkví að læknisráði. Málið er til meðferðar á Alþingi (17.3 2020)

Skerðingar í skólastarfi

 • Í þeim tilvikum sem launamaður þarf að vera heima með börn sín vegna lokunar eða skerðingu á starfsemi leik- og grunnskóla eru laun ekki greidd, heldur yrði launamaður að nýta orlofsrétt eða óska eftir launalausu leyfi. Athygli stjórnvalda hefur verið vakin á því að hafa slík tilvik inni í nýju lögunum, en sem stendur er það ekki svo. Málið er til meðferðar á Alþingi (17.3 2020)
 • Ef atvinnurekandi útvegar launamanni þær tengingar og tæki sem þarf til að sinna vinnu heiman frá sér, þá skal launamaður verða við því og fær þá greidd laun eins og venjulega.

Lokun landamæra

 • Ef launamaður er erlendis og forfallast frá vinnu vegna landamæralokunar í því landi sem hann er staddur, þá á hann ekki rétt til launa.
 • Ef ferðin er á vegum atvinnurekanda þá skal hins vegar greiða launamanni full laun.
 • Launamaður sem starfar á Íslandi í nokkrar vikur í senn og fer þess á milli til síns heima í öðru landi, á ekki rétt til launa ef hann fær ekki að yfirgefa það land þegar kemur að því að hann mæti til vinnu á Íslandi. Þetta á við þrátt fyrir að slíkt vinnufyrirkomulag sé samkomulag við atvinnurekanda sem jafnvel greiðir flugfargjöld viðkomandi.

Uppsagnir vegna samdráttar og skert starfshlutfall

 • Óheimilt er að senda launamann í launalaust leyfi vegna samdráttar. Sé gert samkomulag um launalaust leyfi starfsmanns skal ávallt setja það skilyrði að atvinnurekanda sé óheimilt að grípa til uppsagnar á meðan leyfinu varir.
 • Samkvæmt nýju lagafrumvarpi á Alþingi verður réttur til atvinnuleysisbóta rýmkaður ef samkomulag tekst um skerðingu á starfshlutfalli launamanns. Fjárhæð bótanna mun nema hámarki tekjutengdra atvinnuleysisbóta í réttu hlutfalli við hið skerta starfshlutfall. (17.3.2020 – nánari útfærsla er í vinnslu.)
 • Skert starfshlutfall skv. framansögðu byggist á samkomulagi atvinnurekanda og launamanns en skv. almennum reglum er ekki hægt að skerða starfshlutfall án samkomulags nema með uppsögn. Skert starfshlutfall er því háð samþykki launamanns.
 • Við uppsögn launamanns gilda ákvæði kjarasamninga um framkvæmd þeirra og lengd uppsagnarfrests.
 • Ef launamanni er sagt upp fyrirvaralaust skal strax hafa samband við kjaramal@efling.is. Best er að setja „Fyrirvaralaus uppsögn“ sem efnislínu (e.subject) til að tryggja flýtimeðferð.

Breytingar á störfum og starfslýsingum vegna hækkaðs viðbúnaðar

 • Ef auknar skyldur eru lagðar á launamann í starfi og/eða starfslýsingum breytt til að bregðast við ástandinu í samfélaginu, s.s. með umtalsverðri aukningu í þrifum, þá skal endurskoða starfsmat viðkomandi eða greiða álagsgreiðslur.