Sigur í sögulegri kjaradeilu við Reykjavíkurborg

10. 03, 2020

Efling – stéttarfélag og Reykjavíkurborg undirrituðu í nótt, 10. mars 2020, kjarasamning eftir meira en mánaðarlangar verkfallsaðgerðir félagsmanna Eflingar og stífar viðræður hjá ríkissáttasemjara. Með samningnum hefur verið stigið mikilvægt skref í átt að kjaraleiðréttingu láglaunafólks og kvennastétta. Verkfallsaðgerðum gagnvart Reykjavíkurborg er aflokið.Með samningnum hækka byrjunarlaun Eflingarfélaga í lægstu launaflokkum um allt að rúmlega 112.000 krónur á samningstímanum miðað við fullt starf. Hækkunum umfram 90 þúsund króna taxtahækkun að fyrirmynd almenna vinnumarkaðarins er náð fram með töflubreytingu sem skapar að meðaltali um 7.800 krónur í viðbótargrunnlaunahækkun hjá öllum Eflingarfélögum og einnig er samið um sérstaka viðbótarhækkun lægstu launa í formi sérgreiðslu.Sérgreiðslan sem um samdist er 15.000 krónur í lægstu launaflokkum og fjarar út eftir því sem ofar dregur í launaflokkum. Sérgreiðslan kemur á 26 starfsheiti Eflingar önnur en þau sem þegar hafa sérstaka kaupauka. Hún mun skila sér í stiglækkandi mynd til tæplega þriggja af hverjum fjórum Eflingarfélagum hjá borginni.Margvíslegar kjarabætur aðrar en grunnlaunahækkanir eru í samningnum, svo sem stytting vinnuvikunnar, útfærð bæði fyrir dagvinnu- og vaktavinnufólk. Greiðsla 10 yfirvinnutíma á mánuði til leikskólastarfsfólks er nú tryggð í kjarasamningi í formi nýrrar sérgreiðslu. Námskeiðum og fræðslu er gefið aukið vægi í launamyndun einstakra starfsmanna.Efling lítur á samninginn sem sigur eftir langa og stranga baráttu þar sem tekist var hart á um réttmæti krafna félagsins og verkfallsvopninu beitt.Samningurinn nær til um 1.850 Eflingarfélaga í störfum hjá Reykjavíkurborg. Langflestir þeirra eru konur í sögulega vanmetnum kvennastörfum við umönnun, þrif, þvotta og mötuneytisstörf. Aðrir starfa m.a. við gatnaviðhald og sorphirðu. Gildistími samningsins er til 31. mars 2023.Baráttan borin uppi af félagsfólki Verkfallsaðgerðir, sem samþykktar voru með 96% atkvæða í janúar, hófust í byrjun febrúar með tveggja og þriggja daga verkfallslotum áður en ótímabundið verkfall brast á þann 17. febrúar. Á meðan á verkföllunum stóð hélt félagið fjölda baráttufunda með virkri þátttöku Eflingarfólks og stuðningsfólks. Fjöldi ræðumanna og tónlistarfólks sýndi Eflingarfélögum stuðning í verki með þátttöku í fundunum.Barátta félagsins var mjög sýnileg og borin uppi af félagsfólki sjálfu, sem kom fram í fjölmörgum viðtölum, auglýsingum og myndböndum þar sem það sagði frá kjörum sínum. Félagsfólk sinnti verkfallsvörslu ásamt starfsfólki Eflingar.Hart var tekist á í samfélagsumræðunni um kjaradeiluna. Valdamiklir sérhagsmunaaðilar á borð við Samtök atvinnulífsins leituðust við að kveða niður baráttu Eflingarfélaga með greinaskrifum, pöntuðu efni í fjölmiðlum og auglýsingaherferðum. Kannanir sýndu hins vegar eindreginn stuðning almennings við baráttu Eflingarfélaga, þar með talið verkfallsaðgerðir.Afstaða Eflingar var sú að fallast á samning á grunni taxtahækkana á almennum vinnumarkaði en að jafnframt væri þörf á sérstakri kjaraleiðréttingu vegna lágra heildarlauna, álags og kynbundins misréttis sem Eflingarfélagar hjá borginni búa við. Efling minnti ítrekað á yfirlýsingar og fyrirheit sem fulltrúar borgarstjórnarmeirihlutans höfðu gefið um slíkt.Nýr kafli í sögu íslenskrar verkalýðsbaráttu Fjölskipuð samninganefnd Eflingar með fulltrúum úr öllum starfahópum tók þátt í öllum samningafundum ásamt formanni og starfsmönnum félagsins. Stór hópur trúnaðarmanna af vinnustöðum Eflingarfélaga hjá borginni hittist á hverjum morgni í höfuðstöðvum Eflingar til stuðnings og samráðs. Mikil samstaða og baráttuvilji einkenndi framgöngu þessa hóps svo og almennra félaga Eflingar hjá Reykjavíkurborg.„Áður þaggaðar og jaðarsettar konur, sem fáir höfðu fram að því haft áhuga á, stigu fram með sjálfsvirðinguna að vopni og skiluðu skömm láglaunastefnunnar þangað sem hún á heima. Láglaunakonur búa yfir ólýsanlegum kröftum sem þær ákváðu að nýta í eigin baráttu frekar en að fórna sér ævina langa í að taka til eftir aðra,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.„Allar stofnanir valdsins stóðu sameinaðar gegn okkur. Okkur átti að berja  til hlýðni, eins og tíðkast hefur áratugum saman. En Eflingarfélagar hjá borginni hafa fært valdastéttinni og raunar samfélaginu öllu fréttir; þegar verkafólk kemur saman í krafti fjöldans, samstöðunnar og baráttuviljans þá stöðvar það ekkert. Eflingarfélagar hjá borginni hafa skrifað nýjan kafla í sögu íslenskrar verkalýðsbaráttu,“ sagði Sólveig Anna.Láglaunafólk á íslenskum vinnumarkaði hefur stigið stolt fram úr skugganum. Eflingarfélagar hafa sýnt fram á mikilvægi starfa sinna og réttmæti kröfunnar um mannsæmandi líf. Þótt baráttan hafi nú skilað góðum árangri er hún rétt að byrja.Með undirritun samnings er verkfallsaðgerðum Eflingar gagnvart Reykjavíkurborg lokið. Samningurinn verður nú kynntur félagsmönnum og borin undir atkvæði þeirra.