Efling óskar eftir upplýsingum um breyttar vinnuaðstæður vegna Covid-19

Efling – stéttarfélag hefur haft fregnir af því að til þess að bregðast við því ástandi sem nú ríkir vegna Covid-19 hafi margir vinnustaðir gripið til ráðstafana sem hafa áhrif á vinnuaðstæður félaga í Eflingu. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar hefur sent bréf til Reykjavíkurborgar, Seltjarnarnesbæjar, Mosfellsbæjar, Ölfus, Kópavogs og á aðra umönnunarvinnustaði þar sem óskað er eftir upplýsingum um hvaða breytingar hafa verið gerðar sem snerta félagsmenn Eflingar.Í bréfinu er sérstaklega óskað eftir upplýsingum vegna neðangreinds:

  1. Hefur vöktum eða vinnutíma starfsmanna verið breytt og hvernig er staðið að því? Hefur verið farið eftir ákvæðum kjarasamninga í ferlinu?
  2. Hefur störfum félagsfólks Eflingar verið breytt eða þeim falin önnur/viðbótar verkefni vegna Covid-19?
  3. Hvaða upplýsingum og/eða tilmælum hefur verið komið til félagsfólks Eflingar?
  4. Til hvaða ráðstafana hefur verið gripið til að tryggja að samkomubann sé virt, þ.e. að ekki séu fleiri en 20 manneskjur í sama rými og að hægt sé að tryggja að 2 metrar séu á milli fólks til að minnka smithættu?

Sólveig Anna segir ástæðuna fyrir þessari fyrirspurn vera þá að álag á starfsfólki í störfum innan Eflingar aukist gríðarlega þegar hversdaglegri smit á borð við Nóró veiru, inflúensu eða njálg koma upp á vinnustöðum. Því sé ástæða til að ætla að þegar um sé að ræða lífshættulega farsótt verði kröfurnar sem settar eru á starfsfólk vegna þrifa og sótthreinsunar þeim mun meiri. „Við venjulegar aðstæður vinnur fólk í umönnunarkerfinu undir mjög miklu álagi á vanfjármögnuðum vinnustöðum, sem í þokkabót glíma við meira og minna stöðuga undirmönnun. Við viljum ná utan um það til hvaða ráðstafana hefur verið gripið til að geta gert kröfur um úrbætur ef þörf er á. Það gengur ekki að fólk sem allajafna starfar undir miklu álagi fyrir lág laun sé látið leysa vandamál sem fylgja faraldrinum með því að vinna meira og hraðar fyrir sömu laun og áður. Við munum meta hvað við teljum rétt að gera þegar svör hafa borist“ segir Sólveig Anna.