Kjaraviðræður hafnar vegna 1800 félagsmanna hjá hjúkrunarheimilum – sömu kröfur og á ríkið, borg og sveitarfélögin

11. 05, 2020

Viðræður um endurnýjun kjarasamnings eru hafnar milli Eflingar og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV). Í viðræðunum semur Efling fyrir hönd u.þ.b. 1800 starfsmanna á hjúkrunarheimilum. Samninganefnd skipuð öllum trúnaðarmönnum Eflingar á heimilunum og formanni Eflingar leiðir viðræður félagsins.SFV fer með samningsumboð gagnvart Eflingu fyrir hönd fjölda hjúkrunarheimila á félagssvæði Eflingar, til að mynda Grund, Hrafnistu, Eir og fleiri.Krafa Eflingar í viðræðunum er um leiðréttingu sambærilega þeirri sem náðst hefur fram gagnvart Reykjavíkurborg, Ríkinu og Faxaflóahöfnum. Samningar Eflingar við SFV hafa áður tekið mið af samningum félagsins við Ríkið. Hjúkrunarheimilin eru fjármögnuð af hinu opinbera jafnvel þótt þau séu í sjálfstæðum rekstri.Fyrsti formlegi samningafundurinn fór fram í gær föstudaginn 8. maí.„Rétt eins og hjá borginni, ríkinu og sveitarfélögunum er hér um að ræða hóp mestmegnis kvenna sem hafa búið við lág laun, undirmönnun og viðvarandi álag árum saman. Kórónaveirufaraldurinn hefur sýnt öllum hversu algjörlega ómissandi þessi hópur er. Krafa okkar um leiðréttingu er nákvæmlega sú sama og hjá öðrum hópum í sömu stöðu. Eftir allt sem á undan er gengið getur varla annað verið en að gengið verði að henni,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.