Fjárfesting í mannauði verkafólks leið út úr kreppu

19. 06, 2020

Því miður hrannast dökk ský upp á íslenskum vinnumarkaði. Sífellt fleiri Eflingarfélagar takast á við atvinnumissi, óöryggi og skert lífsgæði. Stjórn Eflingar hvetur hið opinbera til fjölga vellaunuðum og öruggum störfum verkafólks í því skyni að snúa þróuninni við. Brýnt er að staðið sé við gefin loforð um kjarabætur, atvinnuleysisbætur verði hækkaðar og efnt til aðgerða á sviði húsnæðismála, sér í lagi verði komið á hlutdeildarlánum og efnt til umbóta í lagaumhverfi leigumarkaðarins. Ályktun þess efnis var samþykkt á stjórnarfundi þann 18. júní.Ályktun stjórnar EflingarLjóst er að framundan er vetur mikilla erfiðleika og spennu á vinnumarkaði. Kórónaveirufaraldurinn hefur þegar leitt til atvinnumissis, óöryggis og skertra lífsgæða hjá félagsmönnum Eflingar. Eflingarfélagar eru fjölmennir í þeim hópi sem horfir fram á atvinnuleysi næstkomandi vetur.Efling krefst þess að stjórnvöld grípi til viðeigandi ráðstafana til að verja afkomu og lífskjör Eflingarfélaga, hvort sem þeir eru í vinnu eða atvinnulausir.Skýr krafa Eflingar er að atvinnuleysisbætur verði hækkaðar, samanber ályktun stjórnar Eflingar frá 6. apríl síðastliðnum. Efling minnir á að ráðamenn, háttsettir embættismenn, auðmagnseigendur og hálaunafólk hafa á undanförnum mánuðum skammtað sér ríflegar launahækkanir, arðgreiðslur og aðrar búbætur á meðan atvinnuleysisbætur standa í stað.Efling áréttar jafnframt þá óhagganlegu afstöðu að umsamdar launahækkanir, sem sátt náðist um að loknum verkfallsaðgerðum og erfiðum samningaviðræðum vorið 2019, verða ekki teknar aftur. Það sem segir í ályktun stjórnar frá 6. apríl um umsamda launahækkun 1. apríl 2020 á einnig við um væntanlega launahækkun 1. janúar 2021.Efling tekur undir með tillögum Alþýðusambands Íslands í stefnuskjalinu „Rétta leiðin“ um opinbera atvinnustefnu sem miðuð verði að þörfum verkafólks. Efling telur að hinu opinbera beri skylda til að styðja við fjárfestingu í vel launuðum og öruggum störfum almenns verkafólks, hvort sem er við opinberar byggingarframkvæmdir eða á fjársveltum og undirmönnuðum umönnunarstofnunum. Fjárfesting í mannauði almenns verkafólks er leið út úr kreppu, til betra samfélags og skilar sér margfalt til baka.Efling minnir á loforð stjórnvalda sem gefin voru út í tengslum við undirritun kjarasamninga í apríl 2019. Efling minnir á loforð varðandi húsnæðismál, sér í lagi um hlutdeildarlán og umbætur á lagaumhverfi leigumarkaðarins. Húsnæðismál eru mjög aðkallandi hagsmunamál láglaunafólk og skipta enn meira máli í ljósi óöryggis og óstöðugleika vegna Kórónaveirufaraldursins.Efling minnir jafnframt á loforð stjórnvalda um upptöku sekta og hertra virðurlaga við kjarasamningsbrotum. Kjaramálasvið Eflingar innheimti hundruð milljóna fyrir hönd félagsmanna á síðasta starfsári vegna launaþjófnaðar. Atvinnurekendur sæta engum afleiðingum vegna þessa, en á sama tíma bíða almennra borgara þungir dómar fyrir samlokuþjófnað úr verslunum og verkafólk af erlendum uppruna er hundelt af sérstökum fangabíl. Efling kalla eftir því að refsiaðgerðum sé beitt gegn gerendum í vinnumarkaðsbrotum, ekki þolendum.