Leiðrétting kjara nær til starfsfólks hjúkrunarheimila

18. 06, 2020

Samninganefndir Eflingar og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu undirrituðu í dag 18. júní 2020 kjarasamning vegna starfa félagsmanna Eflingar á hjúkrunarheimilum. Er um að ræða um 1.800 manna hóp sem sinnir störfum við umönnun aldraðra, þrif, þvott og í eldhúsum.Rekstrarform hjúkrunarheimilanna er ólíkt en kjarasamningar þeirra hafa samkvæmt hefð tekið mið af niðurstöðu samnings Eflingar við ríkið. Er það áfram svo í þessum samningi.Samningurinn felur í sér taxtahækkanir að fyrirmynd Lífskjarasamningsins líkt og í öðrum samningum Eflingar við opinbera aðila. Til viðbótar er svigrúm til sérstakrar hækkunar lægstu launa í samræmi við áherslu Eflingar á leiðréttingu kjara sögulega vanmetinna kvennastétta og þann árangur sem náðst hefur í undangengnum samningum við ríki, Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga. Verður sú leiðrétting gerð í tengslum við upptöku nýrrar launatöflu 1. janúar 2021 og fylgir samningnum vilyrði um fjármagn til þess.. Samningurinn gildir frá því fyrri kjarasamningur rann út 1. apríl 2019 til loka marsmánaðar 2023. Verða umsamdar taxtahækkanir 1. apríl 2019 og 1. apríl 2020 greiddar afturvirkt að frádreginni 105.000 kr. innágreiðslu sem aðildarfyrirtæki SFV greiddu í sumum tilvikum á haustmánuðum 2019.Samið er um styttingu vinnuvikunnar í sams konar útfærslu og hjá ríki, Reykjavíkurborg og öðrum sveitarfélögum á starfssvæði Eflingar. Vinnuvikan í dagvinnu styttist um 13 mínútur á dag (65 mínútur á viku) frá 1. janúar 2021 og verður hægt að komast að samkomulagi á hverjum vinnustað um frekari styttingu. Vinnuvikan í vaktavinnu styttist niður í 36 virkar vinnustundir frá 1. maí 2021 og getur í sumum tilvikum styst niður í allt að 32 vinnustundir.Þrjátíu daga orlof er nú innleitt fyrir alla félagsmenn sem starfa undir samningnum.Samningurinn er undirritaður af hálfu formanns og samninganefndar Eflingar með fyrirvara um samþykki félagsmanna sem munu starfa undir samningnum í atkvæðagreiðslu. Hefst nú vinna við kynningu samningsins og undirbúning atkvæðagreiðslu. Verður öllum nauðsynlegum gögnum og upplýsingum komið til félagsmanna.„Ég lýsi mikilli gleði með að loksins hafi náðst saman um góðan samning fyrir þennan stóra hóp félagsmanna. Niðurstaða þessa samnings sýnir hverju við getum áorkað þegar forysta og félagsmenn eru samstíga og tala einni röddu. Árangurinn af verkfallsaðgerðum Eflingarfélaga í vetur og vor heldur áfram að skila sér,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. 

Frá undirritun samninga fyrr í dag.