Efling leggur fram tillögur til lausnar á kjaradeilu við sjálfstæða skóla

19. 08, 2020

Samninganefnd félagsmanna Eflingar gagnvart Samtökum sjálfstæðra skóla (SSSK) hitti í dag fulltrúa samtakanna á samningafundi í húsnæði Ríkissáttasemjara. Efling lagði þar fram tillögur til lausnar á kjaradeilunni.Þann 15. maí síðastliðinn lagði Efling fram drög að fullbúnum samningi sem felur í sér vísun í núgildandi samning Eflingar við Reykjavíkurborg, ásamt sérákvæðum þar sem við á. Sjá má drögin hér.Fyrir liggur að festa í kjarasamningi núverandi starfskjör starfsfólks á einkareknum leik- og grunnskólum en þau hafa árum saman tekið mið af samningum Eflingar við Reykjavíkurborg. Engar kröfur eru af hálfu Eflingar gerðar umfram samninginn við Reykjavíkurborg.Síðasti samningafundur var haldinn 25. júní síðastliðinn. Þar lögðu SSSK munnlega fram óskir og athugasemdir. Á fundinum í dag lagði Efling fram skriflegar tillögur til lausnar á þeim atriðum.Næsti fundur í viðræðunum verður 2. september næstkomandi samkvæmt ákvörðun Ríkissáttasemjara. Efling vísaði viðræðunum til Ríkissáttasemjara þann 19. maí 2020.Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar sagði: „Málið er í eðli sínu afar einfalt: það þarf að staðfesta í gildum samningi að kjör Eflingarfólks hjá sjálfstæðum skólum séu þau sömu og hjá Reykjavíkurborg. Við trúum ekki öðru en að á næsta samningafundi komumst við langleiðina að samkomulagi.“