Samningar skulu standa  

28. 09, 2020

Kolbrún Valvesdóttir, stjórnarkona í Eflingu er með beitta grein á frettabladid.is. Hún fer hörðum orðum um þá atlögu sem SA gerir nú að verkafólki og felur í sér að svíkja launalægsta fólk samfélagsins um 24.000 kr. launahækkun.Samningar skulu standaÖgurstund er runnin upp.Undir hælnum á áhrifamiklum ferðaþjónustufyrirtækjum beita Samtök atvinnulífsins útúrsnúningum til að freista þess að svíkja verkafólk á almennum vinnumarkaði um 24.000 kr. kjarabót Lífskjarasamningsins um næstu áramót.Rökfærsla samtakanna fyrir riftun samningsins er brjóstumkennanleg enda eru forsendur hans skýrar. Samningurinn heldur ef kaupmáttur vex og vextir haldast lágir. Hvorugur samningsaðilanna velkist í vafa um að þessar forsendur hafi haldið. Því liggur í augum uppi að Lífskjarasamningurinn í heild sinni haldi.Í örvæntingarfullri tilraun sinni til að færa þyngstu Covid-byrðarnar á verkafólk á berstrípuðum töxtum vilja Samtök atvinnulífsins engu að síður rifta samningnum á þeim forsendum að stjórnvöld hafi ekki efnt loforð sín um takmörkun á 40 ára verðtryggðum húsnæðislánum. Með því er fulllangt gengið því að atvinnurekendur gerðu ekki kröfu til stjórnvalda um þetta mál heldur verkalýðshreyfingin. Því er það verkalýðshreyfingarinnar, ekki atvinnurekenda, að skera úr um hvort þessar forsendur haldi eða ekki.Í atlögu sinni að lægst launuðu starfsmönnunum á íslenskum vinnumarkaði ganga Samtök atvinnulífsins erinda valdamikilla eigenda ferðaþjónustufyrirtækja. Þessum valdahópi hefur tekist að sannfæra samtökin um að afkoma greinarinnar sé undir því komin að fyrirtækin komist hjá því að greiða umsamdar kjarabætur til lægst launuðu starfsmannanna á íslenskum vinnumarkaði.Sannleikurinn er sá að stjórnendur ferðaþjónustufyrirtækja í miklum rekstrarvanda hafa þegar sagt upp fólki og betur settari ferðaþjónustufyrirtæki njóta ríflegs stuðnings úr ríkissjóði til þess að mæta launakostnaði. Launahækkun upp á 24.000 kr. til handa lægst launaða fólkinu sker ekki úr um afkomu þessar fyrirtækja. Svo mikið er víst.Harmakvein Samtaka atvinnulífsins hefur keðjuverkandi áhrif á atvinnurekendur. Eigendur fyrirtækja í blómstrandi greinum eins og fiskvinnslu, iðnaði og smásölu fleygja sér á vagninn til að freista þess að sleppa við að greiða umsamdar kjarabætur. Hið opinbera situr heldur ekki aðgerðarlaust. Blekið er varla þornað á nýafstöðunum kjarasamningum þegar gerð er atlaga að kjörum starfsmanna hjá sveitarfélögunum en málflutningur Aldísar Hafsteinsdóttur, formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga er í takt við málflutning Samtaka atvinnulífsins.Hátt hlutfall þessara starfsmanna eru konur í umönnunarstörfum. Þessar konur eru launalægstu starfsmenn á íslenskum vinnumarkaði og hafa sjaldnast tækifæri til að bæta kjör sín með yfirvinnu eða álagsgreiðslum. Sumar ná vart að sjá sjálfum sér og fjölskyldu sinni farborða.Með samningum á opinberum markaði náðist loks sátt og viðurkenning á því í samfélaginu að þessar konur og karlkyns samstarfsmenn þeirra fengju verðskuldaða launaleiðréttingu enda gegnir þessi hópur verðmætum grundvallarstörfum í samfélaginu. Þessi staðreynd varð enn ljósari þegar Covid-19 faraldurinn hóf innreið sína í vor.Nú vilja ráðamenn svíkja þennan hóp, svipta hann virðingu og voninni um að geta nokkurn tíma lifað mannsæmandi lífi. Á slíkt mun ég, láglaunakona á íslenskum vinnumarkaði, aldrei fallast. Við í hreyfingu vinnandi fólks munum hvergi hvika og standa saman sem einn maður gegn ósanngjarnri atlögu atvinnurekenda að verkafólki og sannarlega gildum kjarasamningum þeirra við atvinnurekendur.Samningar skulu standa.Kolbrún Valvesdóttir, verkakona og meðlimur í stjórn Eflingar.Birt á frettabladid.is 28.09.2020