Að virða samninga

16. 10, 2020

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og Ingólfur B. Jónsson, aðstoðarsviðsstjóri kjaramálasviðs Eflingar rituðu grein í Morgunblaðið þar sem þau fara yfir það hvernig víðtæk kjarasamningsbrot grafa undan trausti á vinnumarkaði og það beri að taka á launaþjófnaði á íslenskum vinnumarkaði. Sorglegt er að sjá framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins á síðum Morgunblaðsins gera lítið úr þessum staðreyndum og uppnefna það „ómálefnalegt“ og „veruleikafirrt“ að vekja athygli á þeim.Að virða samningaÍ dag starfrækir Efling – stéttarfélag tíu manna deild, Kjaramálasvið, sem sinnir því verkefni að aðstoða félagsmenn vegna réttindabrota sem þeir verða fyrir á vinnumarkaði. Á síðasta ársfjórðungi, eða í júlí, ágúst og september 2020, tók kjaramálasvið við yfir 3.500 símtölum frá félagsmönnum, 1.300 tölvupóstum og tæplega 700 heimsóknum á skrifstofur félagsins.Kjaramálasvið sinnir einnig fræðslu, vinnustaðaeftirliti og öðrum verkefnum, en meginverkefni þess er að aðstoða félagsmenn  við gerð launakrafna. Launakrafa er gerð þegar laun hafa verið vangreidd eða önnur kjarasamningsbundin réttindi ekki virt til fulls. Algeng brot eru til dæmis þegar vaktaálag er ranglega greitt í stað yfirvinnuálags, áunnið orlof er ekki gert upp við starfslok, desemberuppbót er ekki greidd og svo mætti lengi telja.Á síðasta ársfjórðungi skráði Kjaramálasvið yfir 260 ný mál sem varða ýmis réttindabrot. Þar af voru 87 launakröfur að heildarupphæð rúmar 65 milljónir. Nokkrir af þeim atvinnurekendum sem kröfurnar snúa að eru með meira en tíu opnar launakröfur, en sjá má nöfn þessara fyrirtækja og heildarupphæðir krafna á heimasíðu Eflingar í nýútgefinni ársfjórðungsskýrslu Kjaramálasviðs.Þessar kröfur endurspegla raunveruleg brot á réttindum félagsmanna, ekki mistök í launabókhaldi sem flestir atvinnurekendur ná að leiðrétta  án afskipta stéttarfélags. Efling sendir ekki út launakröfur fyrir hönd félagsmanna nema þær séu studdar gögnum á borð við ráðningarsamning, launaseðil, tímaskráningar og kvittanir fyrir greiðslu launa. Mjög sjaldgæft er að launakröfum Eflingar sé hnekkt og yfirleitt fást þær greiddar að endingu, oft með aðstoð lögmanna félagsins.Vandamálið er hins vegar að innheimtuferli launakröfunnar getur tekið óratíma. Stundum þarf að fara með kröfur fyrir dóm, í gegnum þrotabú gjaldþrota fyrirtækja eða í gegnum Ábyrgðarsjóð launa. Atvinnurekandi fær engar sektir og launamaðurinn fær engar bætur, jafnvel þótt atvinnurekandinn sé dæmdur sekur fyrir dómi. Í millitíðinni ber launamaðurinn allan kostnað af því að hafa verið snuðaður um sín laun. Hann getur ekki beðið um frest á greiðslu húsaleigu eða annarra reikninga vegna þess að launum hafi verið stolið.Óprúttnir atvinnurekendur hafa lært inn á þetta kerfi. Þeir nýta sér æ grimmar þann fjárhagslega hvata  til launaþjófnaðar sem refsileysið býr til. Heildarupphæð launakrafna Eflingar hefur vaxið um 40% á ári síðustu fimm ár. Launaþjófnaður á íslenskum vinnumarkaði er í veldisvexti. Nú er svo komið að kröfurnar nema um milljón á dag. Hafa ber í hug að þetta eru eingöngu tilkynnt brot og sterkar vísbendingar eru um að margir félagsmenn veigri sér við að leita réttar síns af ótta við uppsögn.Sorglegt er að sjá framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins á síðum Morgunblaðsins gera lítið úr þessum staðreyndum og uppnefna það „ómálefnalegt“ og „veruleikafirrt“ að vekja athygli á þeim. Fyrir fólk á lægstu launum er launaþjófnaður ekki aðeins sár niðurlæging heldur efnahagslegt stórtjón. Meðalupphæð launakröfu sem Efling setti í innheimtu árið 2019 er yfir hálf milljón. Það segir sig sjálft hvað slík upphæð þýðir fyrir láglaunamanneskju.Þær tillögur sem Efling og ASÍ hafa lagt fram til að stemma stigu við þessum vanda eiga sér fyrirmynd í núgildandi kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins við Sjómannasamband Íslands og í danskri vinnumarkaðslöggjöf. Það er með öllu óskiljanlegt hvað framkvæmdastjóri SA telur „óraunhæft“ við þær lausnir.Það er til lítils að gera kjarasamninga séu þeir ekki virtir. Efling heldur því að sjálfsögðu ekki fram að launaþjófnaður einstakra atvinnurekenda sé skipulagður af Samtökum atvinnulífsins, en víðtæk kjarasamningsbrot grafa undan trausti á vinnumarkaði og það er vandi sem samtök atvinnurekenda ættu að hafa áhyggjur af. Viðsemjandi með sjálfsvirðingu hlýtur að styðja að brot á þeim samningum sem hann gerir séu tekin alvarlega.Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar-stéttarfélagsIngólfur B. Jónsson, aðstoðarsviðsstjóri kjaramálasviðs EflingarBirt í Morgunblaðinu 16.10.2020.