Þegar öllu máli skiptir að viðhalda kaupmætti láglauna- og millitekjuhópa til að komast upp úr kreppunni hampar ríkisstjórnin hátekjuhópum segir Stefán Ólafsson í beinskeyttri og afhjúpandi grein um inntak nýframlagðra fjárlaga. Hann bendir á að stóreignafólk komi mun betur út úr skattalækkunum ríkisstjórnarinnar heldur en lágtekjuhópar og vitnar í guðspjall ríka fólksins um að þeir sem hafi mest skuli fá meira.
Fjárlögin: Styrkur til stóreignafólks
Þess sér merki í fjárlögum næsta árs að Sjálfstæðisflokkurinn fer með húsbóndavaldið í fjármálaráðuneytinu.Í miðri djúpri kreppu þegar ríkið býr við tekjufall og þörf er fyrir aukin útgjöld til að verjast því að kreppan dýpki enn frekar þá skjóta sjálfgræðismenn flokksins auknum styrkjum til stóreignafólks inn í fjárlög næsta árs. Þetta kemur í framhaldi af því að ríkisstjórnin hefur lækkað veiðigjöldin útvegsmanna um milljarða.Verkalýðshreyfingin hefur lagt áherslu á að kaupmætti almennings, sérstaklega lægri og milli tekjuhópa, sé viðhaldið til að styðja við innlenda eftirspurn í gegnum kreppuna. Það er góð og vel reynd kreppuhagfræði í anda Keynes.Í þeim fræðum er hins vegar varað við því að ekkert gagn er af því að styðja sérstaklega við stóreigna- og hátekjufólk í kreppum. Slíkt skili sér ekki í aukinni innlendri eftirspurn, heldur gæti t.d. leitt til meiri flutnings fjár úr landi – sem gæti svo lækkað gengið og rýrt kaupmátt almennings í framhaldinu.Skattalækkun til lágtekjufólks og milli tekjuhópa er gott og gilt kreppuúrræði, en ekki skattalækkun til hæstu tekjuhópa.En í Sjálfstæðisflokknum virðist sjálfgræðisstefnan skynseminni sterkari – það er græðgin. Útvegsmenn eru ekki sérstaklega þurfandi, né einkafjárfestar og hátekjufólk sem heldur öllu sínu. Hins vegar eru örorkulífeyrisþega þurfandi, enda hafa þeir dregist afturúr launaþróuninni í samfélaginu á síðustu árum. Þeim er í nýju fjárlögunum ætlað að dragast enn frekar afturúr.Þá eru atvinnulausir að bera þyngstu byrðar kreppunnar. Þó lengt sé í tímabilinu á tekjutengdum bótum úr 3 mánuðum í 6 (sem er mikilvæg krafa verkalýðshreyfingarinnar) þá býr sívaxandi hópur langtíma atvinnulausra við örbirgðarbætur (289.500 kr. á mán. fyrir skatt; 235.100 eftir skatt og frádrátt). Þessum hópi er ekki ætluð nein létting lífsbaráttunnar í fjárlögunum.Þó ríkisstjórnin hafi að sumu leyti tekið tillit til áherslna verkalýðshreyfingarinnar í kreppuúrræðum sínum, meðal annars með áherslum á að vernda störf og viðhalda kaupmætti, þá fer hún einnig illa afvega með því að auka fríðindi stóreignafólks.Annað dæmi um þetta er innleiðing skattaafsláttar vegna hlutabréfakaupa, sem einkum nýtist þeim efnameiri. Þá er líka horft framhjá því að almenningur sem leiddist út í að setja takmarkað sparifé sitt í hlutabréf á bóluárunum tapaði illa á því, bæði á kaupum í Decode og sérstaklega í bönkunum þremur fyrir hrun.Skattalækkun til stóreignafólks er meiri en til lágtekjufólksFjármálaráðherra upplýsir að um 14 milljarðar muni renna til lækkunar tekjuskatts, sem samið var um í Lífskjarasamningnum. En lækkun fjármagnstekjuskatts nú mun nema 2,1 milljarði.Þegar þess er gætt að lækkun tekjuskatts rennur til stórs hluta hluta almennings, mikils fjölda, en stóreignafólkið sem er með hæstu fjármagnstekjurnar er tiltölulega fámennur hópur, þá má ljóst vera að stóreignafólk mun fá mun hærri krónutölu í þessari lækkun fjármagnstekjuskattsins en láglaunafólkið sem mest fær úr lækkun tekjuskattsins.Guðspjall ríka fólksins er sem sagt enn í hávegum haft í Valhöll: „Þeir sem mest hafa skulu meira fá …“ (Matteus 25:29). Hinir ríkisstjórnarflokkarnir taka svo undir.Þetta guðspjall, sem nýfrjálshyggjumenn hafa gert að sínu og viðhaldið, er sem sagt ekki enn alveg dautt í Sjálfstæðisflokknum, þó sífellt fleiri séu nú orðið búnir að átta sig á miklum meinsemdum þess.Með því að sleppa þessum óþörfu styrkjum til stóreignafólks hefði mátt taka fastar á raunverulegum vanda samfélagsins í kreppunni.Stefán Ólafsson, prófessor við HÍ og sérfræðingur í hlutastarfi hjá Eflingu-stéttarfélagiBirt á kjarninn.is 7.10.2020