Efling boðar félagsmenn SSSK til upplýsinga- og samráðsfundar næstkomandi þriðjudag, 13. október, klukkan 17:00 á Zoom-fjarfundaforritinu.Við biðjum félagsmenn að fjölmenna á fundinn á þriðjudag. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar og félagar í samninganefndinni, bæði starfsmenn Eflingar og félagsmenn sem í henni sitja, munu fara ítarlega yfir stöðuna og ákveða ásamt fundargestum næstu skref.Upplýsingar til að tengjast fjarfundi:
- Tími og dags.: klukkan 17:00 þriðjudaginn 13. október
- Tengill á fundinn: ef ykkur hefur ekki borist fundarboð í tölvupósti hafið samband við felagssvid@efling.is til að fá tengil á fundinn og leiðbeiningar um notkun á Zoom.
- Í viðhengi eru leiðbeiningar um hvernig á að tengjast Zoom-forritinu.
Efling hefur átt í viðræðum við SSSK eftir að sögulegur kjarasamningur var undirritaður við Reykjavíkurborg í apríl á þessu ári. Hið einfalda markmið viðræðna við SSSK hefur verið að festa í kjarasamning að laun, kjör og réttindi séu þau sömu og hjá Reykjavíkurborg. Smátt og smátt hefur komið í ljós að enginn vilji er til kjarasamningsgerðar á þeim nótum af hálfu SSSK. Ætlun SSSK er að halda starfsfólki samningslausu eða að öðrum kosti þröngva upp á það kjaraskerðingum. Á samningafundi þann 7. október sl. kröfðust SSSK kjaraskerðinga í mörgum liðum, þar á meðal að afnema núverandi uppsagnarvernd, skerða réttindi í fæðingarorlofi og stytta veikindarétt margfalt.Með þessu er gerð grafalvarleg atlaga að kjörum Eflingarfélaga hjá SSSK, þeim sýnd lítilsvirðing, og hótað að gera þá að fórnarlömum félagslegra undirboða.Félagsmenn Eflingar í öllum geirum vinnumarkaðarins hafa hins vegar sýnt að þeir geta tekið stjórnina á eigin lífskjörum og notað stéttarfélagið sitt til þess. Mikil reynsla hefur safnast upp innan félagsins í því hvernig við skipuleggjum og sigrum kjaradeilur, en það krefst ávallt virkrar þátttöku fjölda félagsmanna.