Efling svarar yfirlýsingu frá Kópavogsbæ

29. 01, 2021

Kópavogsbær hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna opins bréfs sem Efling sendi sveitarfélaginu í gær þar sem skorað var á Kópavogsbæ að standa við skuldbindingar sínar um styttingu vinnuvikunnar.Í yfirlýsingu Kópavogsbæjar segir að vinna við útfærslu og undirbúning styttingar vinnuvikunnar hafi verið í samræmi við leiðbeiningar og í nánu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og önnur sveitarfélög. Þá er því fjálglega lýst hvernig settar voru á stofn vinnutímanefndir sem samanstóðu af fulltrúum stjórnenda og starfsmanna sem fóru yfir tækifæri til vinnutímastyttingar á hverjum vinnustað fyrir sig. Greidd hafi verið atkvæði um tillögurnar og meirihluti starfsmanna því ráðið hvað varð ofan á.Efling bendir á að umræddum vinnutímanefndum var stjórnað af einum og sama starfsmanninum á Bæjarskrifstofum Kópavogs. Þessi starfsmaður þrýsti á félagsfólk Eflingar að samþykkja tillögur nefndarinnar. Var félagsfólki hótað öðrum kjaraskerðingum ef það féllist ekki á tillögur starfsmannsins. Þess má geta að starfsmaður Eflingar sem er fulltrúi ASÍ í innleiðingarhópi verkefnisins gerði alvarlega athugasemd við að starfsmaður frá bæjarskrifstofum hafi einokað störf vinnutímanefndanna. Við þeirri athugasemd var ekki brugðist.Efling áréttar að vinnubrögð Kópavogsbæjar við samráð um styttinguna hjá félagsfólki Eflingar voru með öllu óboðleg. Í þeim er fólgin mikil vanvirðing við félagsfólk Eflingar. Til að mynda var þrýst á Eflingarfélaga í grunnskólum að samþykkja að stytting vinnuvikunnar fælist í því einu að þeir fái áfram greitt fyrir daga sem skólinn er lokaður í tengslum við vetrarfrí og stórhátíðir. Þetta er væntanlega það sem Kópavogsbær á við þegar segir í yfirlýsingunni: „Á sumum vinnustöðum var stytting þegar komin til framkvæmda að hluta eða öllu leyti.‟ Þetta þýðir með berum orðum að engin stytting vinnuvikunnar á sér stað.Í fylgiskjali um styttingu vinnuvikunnar sem tilheyrir gildandi kjarasamingi er tekið fram að samráð eða samtal við starfsfólk eigi að eiga sér um útfærslur. Þar segir: „Í samtali verða gerðar tillögur um skipulag vinnunnar og fyrirkomulag hléa, þar sem starfsfólki er gefinn kostur á að nærast. Sérstök tillaga skal gerð um skipulag vinnutíma þess starfsfólks sem vinnur störf þar sem sveigjanlegum hléum verður ekki við komið og afleysinga er þörf.‟Samkvæmt niðurstöðum könnunar sem gerð var meðal félagsfólks Eflingar hjá Kópavogsbæ átti þetta „samtal‟ sér ekki stað og lítið sem ekkert samráð var haft við starfsfólk, heldur lagðar fram tillögur sem starfsfólki var gert að samþykkja. Útfærslan hjá starfsfólki í heimaþjónustu felur til dæmis í sér að starfsfólk hættir að fá greiðslur fyrir neysluhlé og lækkar þar með í  launum. Í fyrrnefndu fylgiskjali er þó skýrt kveðið á um að enginn skuli lækka í launum við styttingu vinnuvikunnar.Í yfirlýsingu Kópavogsbæjar segir að stytting vinnuvikunnar sé umbótaverkefni sem eigi að hafa jákvæðar breytingar í för með sér fyrir starfsfólkið og að Eflingarstarfsmenn séu dýrmætur hópur starfsmanna Kópavogsbæjar. Þessi orð stangast fullkomlega á við staðreyndir málsins. Efling skorar á Kópavogsbæ að sjá sóma sinn í að innleiða styttingu vinnuvikunnar með sanngirni og réttlæti að leiðarljósi. Varla ætla stjórnendur bæjarfélagsins að láta þá fráleitu niðurstöðu standa að starfsfólk bæjarskrifstofunnar fái fulla styttingu á meðan ómissandi starfsfólk í umönnunarstörfum fær litla eða einfaldlega enga styttingu?