Páskahugvekja Eflingar: Kreppan bitnar mest á þeim verst settu

Dæmigert er í kreppum að lágtekjufólk missi frekar vinnuna en þeir sem betur eru settir. Þannig var það í Kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar og einnig í kjölfar hrunsins 2008. Þetta endurtekur sig nú í Kóvid-kreppunni, þegar atvinnuleysið hefur náð áður óþekktum hæðum hér á landi.Raunar má segja að þessi 12% vinnuaflsins sem eru atvinnulaus séu sá hluti samfélagsins sem langmest finnur fyrir kreppunni, en stór meirihluti þjóðarinnar finnur frekar lítið fyrir henni, enda halda þau vinnu sinni og fullum launum. Byrðunum er því mjög misskipt.Félagsmenn Eflingar – stéttarfélags hafa þurft að axla þyngri byrðar en flestir aðrir á vinnumarkaði, að því er fram kemur í niðurstöðum nýlegrar spurningakönnunar Vörðu, rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins.Eflingarkonur eiga til dæmis mun erfiðara með að ná endum saman heldur en konur í öðrum aðildarfélögum ASÍ og BSRB. Alls segjast 43% Eflingarkvenna í spurningarkönnuninni eiga erfitt eða frekar erfitt með að ná endum saman samanborið við 28% kvenna í öðrum aðildarfélögum samtakanna. Samanlagt á 38% Eflingarfólks (karla og kvenna) í könnuninni erfitt eða frekar erfitt með að ná endum saman en hlutfallið er 25% meðal félaga annarra stéttarfélaga.Aðeins helmingur Eflingarfélaga býr í eigin húsnæði miðað við þrjá fjórðu félaga annarra aðildarfélaga. Að sama skapi býr tæplega þriðjungur Eflingarfélaga í leiguhúsnæði á almennum markaði en 14% félaga í öðrum aðildarfélögum.Heilsufar Eflingarfólks er verra en hjá launafólki í öðrum stéttarfélögum innan ASÍ og BSRB, en samt hefur fleira Eflingarfólk neitað sér um heilbrigðisþjónustu af einhverju tagi síðastliðna sex mánuði (54% á móti 34%). Vanskil leigu og lána eru einnig algengari hjá Eflingarfélögum. Niðurstöður könnunarinnar bera þannig flestar að sama brunni.Af framansögðu er ljóst að verkafólk á Íslandi býr við mun verri kost en félagar í öðrum aðildarfélögum ASÍ og BSRB og alltof margir þeirra reiða sig á hjálparstofnanir til að lifa af í kreppunni. Kreppan hefur þannig magnað þann ójöfnuð sem fyrir var í samfélaginu, með því að hún leggst með meiri þunga á láglaunafólk en aðra.Í þessu samhengi er leitt til þess að vita að stjórnvöld hafa lítt sinnt því að bæta sérstaklega afkomutryggingu þeirra atvinnulausu, en látið styrki til fyrirtækja ganga fyrir. Í Bandaríkjunum, sem ekki eru þekkt fyrir að reka öflugt velferðarríki, hafa stjórnvöld greitt þeim atvinnulausu ríflegar tímabundnar aukagreiðslur ofan á atvinnuleysisbæturnar til að létta þeim byrðarnar í gegnum kreppuna. Hér hefur ekkert sambærilegt verið gert.Það er ekki í anda kristinna sjónarmiða um sanngirni og mannúð að láta lítinn minnihluta samfélagsins bera stærstu kreppubyrðarnar þegar þorri þjóðarinnar býr við ágæt kjör og þeir ríkustu hafa jafnvel aukið eignir sínar.Vonandi rísa stjórnvöld upp eftir páskahelgina og taka til hendinni í þágu þeirra atvinnulausu.