Þorsteinn M. Kristjánsson gerður að heiðursfélaga í Eflingu á aðalfundi Eflingar

Aðalfundur Eflingar-stéttarfélags fór fram á fjarfundaforritinu Zoom í gærkvöldi. Mæting var góð en tæplega 90 manns sátu fundinn.Í skýrslu um starf stjórnar fjallaði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar um áhrif Covid faraldursins á félagsfólk Eflingar og þær áskoranir sem það hefur þurft að mæta, meðal annars aukið vinnuálag í ýmsum starfsgreinum og atvinnuleysi sem hefur bitnað illa á stórum hóp fólks. Hún tæpti á niðurstöðum könnunar Vörðu sem sýna að staða vinnuafls á höfuðborgarsvæðinu er oft á tíðum algjörlega óviðunandi, var slæm fyrir og hefur versnað til muna í faraldrinum. Þá sagði hún frá hvernig aukin áhersla á störf trúnaðarráðs, að frumkvæði stjórnar, hefur skilað góðum árangri í ýmsum mikilvægum málum til að mynda í tengslum við endurskoðun kjarasamninga, vald sjóðfélaga í lífeyrissjóðakerfinu, samningaviðræður og verkföll. Sólveig Anna lauk síðan máli sínu með þessum orðum: „Við erum ómissandi og nú þegar hagkerfið er að taka við sér að ný verður það vinnuafl okkar sem enn á ný skapar hagvöxtinn á landinu. Án okkar er ekki hægt að láta hjól atvinnulífsins snúast. Það er hinn einfaldi sannleikur málsins. Vegna þess að við erum ómissandi að öllu leyti munum við sigra í baráttunni fyrir betra lífi. Það er ég sannfærð um.‟Ársreikningur var kynntur af endurskoðanda og samþykktur mótatkvæðalaust.Ekkert mótframboð barst við lista Sólveigar Önnu og var stjórn því sjálfkjörin. Varaformaður í stjórn er Agnieszka Ewa Ziółkowska. Aðrir fulltrúar í stjórn Eflingar eru Eva Ágústsdóttir, Daníel Örn Arnarsson, Felix Kofi Adjahoe, Kolbrún Valvesdóttir, Guðmundur Baldursson, , Michael Bragi Whalley, Innocentia Fiati, Ólöf Helga Adolfsdóttir, Jóna Sveinsdóttir, Stefán E. Sigurðsson, Úlfar Snæbjörn Magnússon, Zsófía Sidlovits og Saviour De-Graft Ametefio sem kemur ný inn í stjórn og tekur sæti Þorsteins M. Kristjánssonar. En Þorsteinn gengur úr stjórn Eflingar eftir langa og farsæla setu í stjórn.Um leið og Saviour var boðin velkomin til starfa var Þorsteini þakkað fyrir einstaka trúmennsku og góð störf í þágu félagsins til margra ára. Þorsteinn sat í stjórn Eflingar um langt árabil og gegndi ýmis konar trúnaðarstörfum fyrir félagið. Var hann sæmdur nafnbótinni heiðursfélagi í Eflingu og um leið veitt gullmerki félagsins. Við þetta tækifæri sagði Sólveig Anna: „Ég vil nota tækifærið til að þakka þér fyrir einstaka trúmennsku í störfum þínum fyrir félagið, sem stjórnarmaður og sem trúnaðarmaður á þínum vinnustað. Frá því ég tók við formennsku í félaginu vorið 2018 hefur þú nánast aldrei misst úr stjórnarfund. Nærveru þinni hafa ávallt fylgt góðir straumar í þeim ýmsu áskorunum sem fylgt hafa breytingum í okkar félagi. Ég sakna þess að vegna aðstæðna hefur þér ekki gefist færi á að bera fána Eflingar í göngu á 1. maí eins og þú hefur svo oft gert, en ég trúi því að þú berir gullmerki félagsins af sömu reisn.‟