Jólabókaupplestur

29. 11, 2021

Það verður jólastemning á síðasta fræðslukvöldi Eflingar á þessu ári sem haldið verður í Félagsheimili Eflingar, Guðrúnartúni 1, 4. hæð, fimmtudaginn 2. desember, kl. 19.00.

Við fáum til okkar fimm rithöfunda sem ætla að lesa úr nýútkomnum bókum sínum.

Auður Jónsdóttir les úr skáldsögu sinni Allir fuglar fljúga í ljósið

Björt er ráfari, er í stopulli íhlaupavinnu en aðallega fer hún á milli staða í Reykjavík, fylgist með fólki og skráir hjá sér athuganir sínar. Hún leigir herbergi í hrörlegu húsnæði með öðru fólki á svipuðum stað í tilverunni, og hefur fastmótað form og rútínu á lífi sínu. Allt er í föstum skorðum – þar til hún sér Ólöfu Brá … og fær í kjölfarið bréf frá henni. Við það riðlast tilveran og lífssaga Bjartar brýst fram; vináttan við Veru, eitruð sambönd við Steingrím og Hálfdán – og smám saman flettist ofan af hinni ótrúlegu og dramatísku ævi hennar.

Auður Jónsdóttir hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir skáldverk sín. Fimm bóka hennar hafa verið tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og þau verðlaun fékk hún fyrir Fólkið í kjallaranum. Sú bók var jafnframt  tilnefnd af Íslands hálfu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2006 og Ósjálfrátt til sömu verðlauna 2013. Bækur hennar hafa notið mikillar hylli lesenda og gagnrýnenda allt frá fyrstu tíð.

Eva Rún Snorradóttir les upp úr bók sinni Óskilamunir

Óskilamunir er safn smásagna. Sögur um ástir sem finnast og tapast, hvernig sársauki mótar okkur, um allt það sem brotnar en ekki síst um brotin sem enginn vitjar. Hvernig við leitum með veiku ljósi að leið í gegnum þetta ævarandi grímuball sem lífið er.

Eva Rún er sjálfstætt starfandi sviðslistakona og ljóðskáld. Hún hefur um árabil starfað með sviðslistahópunum Kviss búmm bang og 16 elskendur. Eva Rún hefur áður sent frá sér þrjár ljóðabækur: Heimsendir fylgir þér alla ævi, Tappi á himninum og Fræ sem frjóvga myrkrið – sem kom út árið 2018 og hlaut ljóðabókaverðlaunin Maístjörnuna.

Þrjú ljóðskáld lesa úr ljóðasafninu Pólífónía af erlenum uppruna

Pólífónía af erlendum uppruna er ljóðaúrval eftir fimmtán skáld af erlendum uppruna. Natasha Stolyarova ritstýrir bókinni og er jafnframt einn höfunda.

Natasha Stolyarova (f. í Rússlandi) kom til Íslands árið 2012 til að að læra íslensku við Háskóla Íslands. Hún stundaði nám í fjölmiðlafræði í Moskvu en snéri sér að bókmenntum eftir að hún kom til Íslands. Natasha skrifar ljóð og prósa og þýðir úr íslensku og ensku yfir á rússnesku. Hún hefur séð um ýmis bókmenntaverkefni á Íslandi sem tengjast rithöfundum af erlendum uppruna og starfar sem bóksali í miðborg Reykjavíkur.

Giti Chandra (f. á Indlandi) stundar rannsóknir við alþjóðlega jafnréttisskólann (GRÓ-GEST) við Háskóla Íslands. Hún hefur gefið út ljóð og skáldskap, t.d. þríleikinn The Book of Guardians, og skrifað og ritstýrt bókum á sviði kynja- og jafnréttisfræða. Hún býr, elskar og skrifar í Reykjavík og stefnir að því að lesa, elska og skrifa á Íslandi.

a rawlings (f. í Kanada) er þverfaglegur listamaður sem hefur gefið út bækurnar Sound of Mull (2019), Wide Slumber for Lepidopterists (2006), o w n (2015) og si tu (2017). Hún hefur einnig skrifað librettó, til að mynda Bodiless (2014) fyrir Gabrielle Herbst og Longitude (2014) fyrir Davíð Brynjar Franzson. Hún er með doktorspróf frá Háskólanum í Glasgow og starfsárið 2021 til 2022 vann hún að nýdoktorsrannsókn á hvölum á tímum loftslagsbreytinga.

Við hvetjum ykkur eindregið til að mæta og eiga með okkur notalega kvöldstund. Boðið verður upp á léttar og jólalegar veitingar.