Fyrsta áfanga skipulagsbreytinga lokið fyrr en áætlað var

Ráðningum tæplega 20 starfsmanna í störf á skrifstofum Eflingar sem auglýst voru í apríl hefur nú verið lokið. Nýráðnir starfsmenn ganga í fjölbreytt störf við þjónustu, í vinnuréttindum, í fræðslu- og félagsmálum og fleira. Af þeim hafa meira en helmingur reynslu af störfum fyrir félagið. Allir fóru í gegnum viðtöl hjá ráðningarstofu og stóðust hæfniskröfur um kunnáttu í íslensku og ensku. Þrír eru pólskumælandi.

Með ráðningunum hefur stórt skref verið tekið í átt að fullri mönnun skrifstofunnar undir nýju skipulagi. Er þessum áfanga náð mánuði fyrr en áætlað var. Nýráðnir starfsmenn hefja flestir störf þann 1. júní, en nokkrir koma til starfa í sumarlok. Í hópnum eru framkvæmdastjóri og sex stjórnendur og lykilstarfsmenn sem áður hefur verið greint frá. Til viðbótar eru við störf nokkrir einstaklingar sem ráðnir voru til sumarafleysinga.

Úr hópi fyrrum starfsmanna halda 16 einstaklingar áfram störfum fyrir félagsmenn. Þar af verða tíu starfsmenn skrifstofu Eflingar og sex starfsendurhæfingarráðgjafar sem verða starfsmenn VIRK samkvæmt samkomulagi milli Eflingar og VIRK.

„Ráðningarferli hafa gengið mjög vel og kláruðust mánuði fyrr en við gerðum ráð fyrir. Það er ánægjulegt hversu stór hluti nýráðinna starfsmanna kemur úr hópi eldri starfsmanna sem sóttu um og hafa reynslu af störfum fyrir félagið. Vinna við eftirfylgni breytinga og annað uppbyggingarstarf á skrifstofunni heldur nú áfram af fullum krafti,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.