Viðskiptaráð fellur á velferðarprófinu

13. 07, 2022

Stefán Ólafsson skrifar:

Hagfræðingur og lögfræðingur Viðskiptaráðs, Gunnar Úlfarsson og Jóhannes Stefánsson, skrifa grein í Morgunblaðið sl. þriðjudag þar sem þeir gagnrýna umfjöllun í Kjarafréttum Eflingar um íslenska velferðarríkið.

Þeir félagar vaða í villu um hvað felst í hugtakinu „norrænt velferðarríki“ og því er nauðsynlegt að gera nokkrar athugasemdir við málflutning þeirra. Niðurstaða Eflingar er að íslenska velferðarríkið nái ekki máli sem norrænt velferðarríki, vegna afgerandi minni útgjalda til lykilþátta velferðarmálanna. Norræna velferðarríkið snýst um hlutverk hins opinbera í að tryggja lágmarksafkomu, móta tekjuskiptingu og sérstaklega að halda utanum hópa með sérþarfir.

Hér koma athugasemdir mínar.

  1. Hagsældarstig segir ekkert um „norrænt velferðarríki“

Fyrst nefna þeir að Ísland sé á svipuðu hagsældarstigi og hinar norrænu þjóðirnar og virðast telja það til marks um að Ísland sé einnig „norrænt velferðarríki“. Þetta er út í hött. Bandaríkin eru líka með svipaða þjóðarframleiðslu á mann, en engum dettur í hug að flokka þau sem „norrænt velferðarríki“. Hið sama má segja um Saudi Arabíu. Menn jafna því ekki efnahagslegu hagsældarstigi og norræna velferðarríkinu.

  1. Verkalýðshreyfingin skilar jöfnuði og dregur úr fátækt á Íslandi

Tekjuskiptingin á Íslandi er með þeim jafnari nú og hlutfall undir fátæktarmörkum er einnig með því lægsta í hópi OECD-ríkja. En er þessi útkoma sjálfkrafa til marks um öflugt eða „norrænt“ velferðarríki á Íslandi, eins og þeir félagar telja?

Nei! Jöfnuður næst með öðrum leiðum en opinbera velferðarríkinu. Íslenska velferðarríkið er veikburða, eins og Kjarafréttir Eflingar sýna. Jöfnunaráhrif hinna norrænu velferðarríkjanna eru mun meiri en þess íslenska og það sama gildir um skattkerfið. Því hefur jöfnuðurinn hér komið úr annarri átt.

En hvaðan kemur þá jöfnuðurinn á Íslandi? Jú, hann kemur í mun meiri mæli frá verkalýðshreyfingunni. Ef ekki væri fyrir mikil jöfnunaráhrif kjarasamninga á Íslandi þá væri ójöfnuður hér á landi mun meiri, vegna þess hversu veikburða íslenska velferðarkerfið er.

Hið sama gildir um litla fátækt hér á landi. Verkalýðshreyfingin hefur samið um óvenju há lágmarkslaun, ein þau hæstu á Vesturlöndum. Það skilar lágu fátæktarstigi meðal vinnandi fólks. Hér á landi eru það helst skjólstæðingar velferðarríkisins, svo sem örorkulífeyrisþegar og hluti eldri borgara, sem búa við fátækt, auk einstæðra foreldra.

Hátt stig jafnaðar og lágt stig fátæktar eru því einkum afleiðing mikilla áhrifa verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi, sem er óvenju sterk. Það er því rangt hjá þeim Gunnari og Jóhannesi að taka þá útkomu sem sönnun á því að Íslandi sé „norrænt velferðarríki“.

  1. Voru lífeyrissjóðir stofnaðir til að losa ríkið undan lífeyrisgreiðslum?

Þeir félagar neita því ekki að útgjöld íslenska ríkisins til lífeyrisgreiðslna séu óvenju lág í samanburði við OECD-ríkin. Þeir segja það þó vera misskilning að lesa eitthvað um kjör lífeyrisþega út úr því. Vegna stórra lífeyrissjóða sé ekki þörf fyrir lífeyri frá almannatryggingum.

Þetta gæti verið rétt ef lífeyrir eftirlaunafólks frá lífeyrissjóðunum væri gríðarlega hár. En það er hann alls ekki. Eftirlaunafólk hefur að meðaltali nálægt 200.000 krónum á mánuði í lífeyri frá lífeyrissjóðum og helmingur eftirlaunafólks er með enn minna en þetta, en fær þá aðeins meira frá almannatryggingum. Samanlagðar meðal lífeyristekjur eftirlaunafólks eru um 362.000 krónur á mánuði (m.v. skattframtöl ársins 2020) – fyrir skatt. Stór hluti eftirlaunafólks er með minna í lífeyri en lágmarkslaun á vinnumarkaði og er því víðsfjarri því að ná 95% af meðallaunum eins og fullyrt er í grein þeirra félaga, með tilvísun í röng gögn.

Samið var um stofnun lífeyrissjóðanna á almennum vinnumarkaði í kjarasamningum 1969 til að greiða lífeyrisþegum hærri lífeyri en þá fékkst frá almannatryggingum, en ekki til að koma í stað lífeyris almannatrygginga. En með sívaxandi skerðingum hefur ríkið lækkað lífeyri almannatrygginga um of og þar með haldið kjörum lífeyrisþega niðri samhliða vexti lífeyrissjóðanna. Þess vegna er lífeyrir jafn lágur og að ofan var sýnt.

Þeir Gunnar og Jóhannes eru því enn að draga upp þá gömlu villandi mynd að fólk sé að fá miklu meira frá lífeyrissjóðum en raun ber vitni og því sé í lagi að íslenska ríkið dragi sig út úr lífeyrisgreiðslum eftirlaunafólks.

Í næsta tölublaði af Kjarafréttum Eflingar verður fjallað sérstaklega um tekjur eftirlaunafólks og allt það sem skýrir hvers vegna íslenska ríkið greiðir álíka stóran hluta af landsframleiðslu í ellilífeyri eins og Mexíkó og Síle – þrátt fyrir að meðallífeyrir frá lífeyrissjóðunum sé ekki mikið hærri en 200 þúsund kr. á mánuði. Ég vil því hvetja alla til að fylgjast með Kjarafréttum Eflingar (sjá www.efling.is).

Það er gæfa Íslendinga að eiga öfluga verkalýðshreyfingu sem skilar jöfnuði og dregur úr fátækt. Velferðarríkið hjálpar til en leggur mun minna af mörkum til þess verkefnis en velferðarríki hinna Norðurlandanna. Þess vegna nær íslenska velferðarríkið ekki máli sem „norrænt velferðarríki“.

Stefán Ólafsson er prófessor emeritus við HÍ og starfar sem sérfræðingur hjá Eflingu-stéttarfélagi.

Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 7. júlí 2022 og er ínáanleg á vef blaðsins hér (krefst innskráningar).