Í dag hefst stór könnun á kjörum og viðhorfum okkar Eflingarfélaga, sem er stórt skref í undirbúningi kjarabaráttu okkar á komandi vetri. Ekkert er mikilvægara en að við förum inn í kjaraviðræður með áreiðanlega þekkingu á aðstæðum og viðhorfum félagsfólks.
Félagið hefur áður látið vinna stórar kannanir, en nú er gerð sú breyting að allir Eflingarfélagar geta tekið þátt, ekki bara lítið úrtak. Könnunin verður auk þess á fleiri tungumálum en nokkru sinni fyrr, eða 10 talsins (íslenska, enska, pólska, litháíska, spænska, lettneska, rúmenska, tælenska, filipino, víetnamska).
Könnnin er alfarið rafræn og félagsfólk nálgast hana inni á Mínum síðum. Í henni eru 35 spurningar. Raunhæft er að klára könnunina á innan við 15 mínútum. Auðvelt er að svara könnuninni í snjallsíma.
Félagið vinnur könnunina í samstarfi við Gallup, sem annast meðferð allra upplýsinga og úrvinnslu svara. Könnunin er nafnlaus en hægt verður að fylgjast með svarhlutfalli í einstökum geirum og á vinnustöðum af lágmarksstærð.